Kveðja til Bubba Morthens VERA hringdi og sagði að sér fyndist Bubbi Morthens afskaplega skemmtilegur og góður söngvari og hún bað Velvakanda að koma því á framfæri við hann, að syngja eitthvað af gömlu, góðu lögunum.

Kveðja til Bubba Morthens

VERA hringdi og sagði að sér fyndist Bubbi Morthens afskaplega skemmtilegur og góður söngvari og hún bað Velvakanda að koma því á framfæri við hann, að syngja eitthvað af gömlu, góðu lögunum. Hann kemur fram við ýmis tækifæri, t.d. í sjónvarpi, og þá langar hana að heyra hann syngja eitthvað af þeim lögum. Henni fannst einnig mjög gaman að heyra í Snörunum.

Jólabækurnar í Hagkaupi

ÉG VIL hvetja kaupendur bóka í verslunum Hagkaups að geyma kassakvittanir. Því ef þeir ætla að gefa bókina og viðtakandi á hana fyrir er ekki hægt að skipta henni nema kassakvittun fylgi með.

Skemmtilegt, eða hitt þó heldur að láta verðmiðann fylgja jólagjöfinni. Ástæðan er sú, segja Hagkaupsmenn, að þeir eru bara með bækur til sölu fyrir jólin.

Viðskiptavinur Hagkaups.

Tapað/fundið

Barnaskór í IKEA

SUNNUDAGINN 24. nóvember voru teknir barnaskór í misgripum í boltalandi í IKEA. Þeir heita Rockstone nr. 25, brúnir. Hægt er hringja vegna þeirra í síma 564-2535.

Kross fannst fyrir 17 árum

LÍTILL kross fannst á gangstétt við Suðurlandsbraut fyrir framan verslun Gunnars Ásgeirssonar fyrir 17­18 árum. Á krossinn eru letraðir stafirnir HV 20.5. 1954 og gæti hann hugsanlega verið fermingargjöf. Kannist einhver við þennan kross, þótt langt sé um liðið, er hann beðinn að hafa samband í síma 421-2551.

Flístrefill tapaðist

SVARTUR flístrefill (G.A.P.) tapaðist í byrjun nóvember, líklega á Seltjarnarnesi. Upplýsingar í síma 561-1640.

Kvenúr fannst

GULLHÚÐAÐ kvenúr fannst á KR malarvellinum í vesturbæ Reykjavíkur fyrir u.þ.b. tveimur vikum. Eigandinn má hringja í síma 562-9078.

Gæludýr

Goggi er týndur

GOGGI er svartur og hvítur fressköttur sem var í pössun á Kvisthaga. Hann þvældist eitthvað í burtu og hefur verið týndur frá því í byrjun nóvember. Hann ratar því ekki heim. Vinsamlega hafið samband í síma 551-8054 ef þið hafið séð hann Gogga nýlega.