ÍKVERJA finnst bókaflóðið fyrir jólin komið út í fullkomnar öfgar. Það hlýtur að vera eitthvað mikið bogið við bókakaupavenjur landans, fyrst forlögin sjá sér tæplega fært að gefa út bækur á öðrum árstíma en í nóvember eða desember.

ÍKVERJA finnst bókaflóðið fyrir jólin komið út í fullkomnar öfgar. Það hlýtur að vera eitthvað mikið bogið við bókakaupavenjur landans, fyrst forlögin sjá sér tæplega fært að gefa út bækur á öðrum árstíma en í nóvember eða desember. Afleiðingin er sú að bækur, sem kunna að vera mjög áhugaverðar, drukkna í flóðinu og fara framhjá flestum. Víkverji kysi sjálfur að bækur kæmu út í minni skömmtum árið um kring, þannig að hann gæti gefið sér tíma til að vega þær og meta og festa kaup á einni og einni í einu handa sjálfum sér, í stað þess að kaupa heila hrúgu í desember til að setja í jólapakkana.

AMA á raunar við um plötuflóðið á aðventunni. Hver hefur tíma til að hlusta á allt það áhugaverðasta, sem frá íslenzkum tónlistarmönnum kemur, í desember eða tileinka sér allar þær upplýsingar, sem plötuútgefendur ryðja frá sér í þessum eina mánuði? Vilja neytendur sjálfir virkilega hafa þetta svona? Hvernig stendur á þessari furðulegu útgáfutörn fyrir jólin, sem á sér tæplega hliðstæðu í öðrum löndum?

ÍKVERJA þótti skondið að sjá í þætti Ríkissjónvarpsins um heimsókn forsetans til Danmerkur að þar sem forsetahjónin heimsóttu kjörbúð, sem stillti íslenzkum vörum út á áberandi hátt, var flöskum af íslenzku brennivíni raðað í kringum kjötborðið. Þá vita Íslendingar það - ef þeir vilja geta keypt þjóðardrykkinn út úr venjulegri kjörbúð, fara þeir bara til Danmerkur.