ERLENDAR BÆKUR SAGA EVRÓPU FRÁ ENDURREISNARTÍMANUM ohn Merrimann: A History of Modern Europe. ­ From the Renaissance to the Present. London­New York ­ Norton 1996. John Merriman er prófessor við Yale háskólann.

ERLENDAR BÆKUR SAGA EVRÓPU FRÁ ENDURREISNARTÍMANUM ohn Merrimann: A History of Modern Europe. ­ From the Renaissance to the Present. London­New York ­ Norton 1996. John Merriman er prófessor við Yale háskólann. Höfundurinn kveður það hafa orðið tímabært að skrifa nýja Evrópusögu einmitt nú, eftir þá atburði sem ollu hruni Sovétríkjanna og leppríkja þeirra fyrir sjö árum. Þar með slaknaði á þeirri spennu sem hafði um áratugi ríkt í samskiptum Vesturveldanna og Sovétblokkarinnar. Kalda stríðinu var lokið á þeim vettvangi með hruni kommúnismans. Þótt alræðisstjórnun kommúnista hafi tekist að halda þjóðum í spennitreyju, varð stjórnarfarið ekki þess eðlis að "andstæðurnar milli þjóða yrðu upphafnar". Strax og slaknaði á kúguninni, hófust hinar gömlu andstæður milli trúarbragða og þjóðernishópa, eins og dæmin sýna best frá hinni gömlu Júgóslavíu og í suðurhlutum Rússlands.

Sagan hefst um 1450. Þá voru flestir Evrópubúa bændur, og þá skipti litlu máli hvort þeir teldust til ákveðinna ríkja, svo lengi sem þeir fengu að erja jörðina í friði og gátu brauðfætt sig og goldið landsdrottni sínum tilskildar leigur og jarðarafgjöld.

Stéttaskipting var lögbundin og með auknum mannfjölda eftir mannhrun Svartadauða, jókst framleiðslugetan og jafnframt fólksfjöldinn og með þáttaskilum í heimsmynd og aukinni verslun og landafundum, margfaldaðist fjölbreytileiki vöruframboðs og eftirspurnar. Ítalskir bankamenn og kaupmenn og hollenskir farmenn og kaupmenn auðguðust stórum, hið formfasta miðaldasamfélag breyttist smátt og smátt og ýmis merki um meiri breytingar létu á sér kræla. Kristindómurinn skiptist upp og endurmat fornrar arfleifðar Rómverja og Grikkja hófst meðal auðugra bankaog kaupmanna á Ítalíu. Nýjar víddir birtust í málverkum ítölsku meistaranna og enn frekar í verkum flæmsku snillinganna. Höfundurinn leitast við eins og hann skrifar í formála: "Að binda sig við frásagnarsöguna og draga ályktanir af þeim höfuðatburðum og menningarbreytingum sem einkenna sögu Evrópu frá því um 1450 og fram á okkar daga, efnahagslegar, samfélagslegar og pólitískar breytingar verða höfuðviðfangsefnin". Evrópuþjóðunum var gefin sú dirfska og víðsýni bæði í efnahagslegum og andlegum efnum, sem mörkuðu evrópsk áhrif um allan heim eftir því sem aldir liðu. Sköpunarmáttur þjóða Evrópu umbreytti heimsmyndinni og Portúgalar, Spánverjar, Hollendingar og Englendingar, ásamt Frökkum mótuðu mikinn hluta heimsins að eigin þörfum. Þetta olli hruni annarra ríkja og menningarheima. Myndun ákveðinna ríkisheilda með sterkri miðstýringu einkenndu pólitískar breytingar og mögnuðu togstreitu milli voldugustu ríkjanna. Mesti ógnvaldur Evrópuþjóðanna, Tyrkir, voru stöðvaðir og þegar kemur fram á 18. og 19. öld hefst nýtt landnám og yfirtaka landssvæða sem áður voru utan heimsins. Með upplýsingunni og þar áður með uppkomu vísindahyggju Bacons og skynsemishyggju heimspekinga Nýju aldar hrynja hinir fornu miðaldahimnar, glerslíparar í Hollandi opna stjörnufræðingum nýja heima og sjálfur alheimurinn tekur miklum stakkaskiptum í augum Evrópubúa. Newton og Watts verða frumkvöðlar nýrrar framleiðslugetu. Mannfjölgun tekur miklum breytingum strax á 18. öld og stóreykst á 19. öld. Á þeirri tuttugustu verður enn örari mannfjölgun og þá er svo komið að mannfjöldi heimsins eykst um helming á hverjum 40­50 árum. Höfundur leggur mikla áherslu á pólitíska sögu og þar með sögu styrjalda, en styrjaldir myndbreytast með styrjöldum frönsku byltingarinnar, allsherjar herkvaðning, sem markaði styrjaldir 19. og 20. aldar. Heimurinn í dag er mótaður af sögu Evrópu undanfarnar fimm aldir og nútíminn verður ekki skilinn án skilnings á þeirri sögu. Bókin er 1.515 blaðsíður auk litmynda og svart-hvítra mynda.

SIGLAUGUR BRYNLEIFSSON.