Framhald á Sögu Íslands SIGURÐUR Líndal forseti Hins íslenska bókmenntafélags segir að þegar verði tekið til óspilltra málanna við að búa sjötta og sjöunda bindi Sögu Íslands undir útgáfu en, svo sem fram kom í Morgunblaðinu í gær, er á fjárlögum 1997...

Framhald á Sögu Íslands

SIGURÐUR Líndal forseti Hins íslenska bókmenntafélags segir að þegar verði tekið til óspilltra málanna við að búa sjötta og sjöunda bindi Sögu Íslands undir útgáfu en, svo sem fram kom í Morgunblaðinu í gær, er á fjárlögum 1997 gert ráð fyrir að félagið fái sex milljóna króna framlag úr ríkissjóði til að ljúka útgáfu ritraðarinnar.

Síðasta bindi af Sögu Íslands, hið fimmta í röðinni, kom út árið 1991 en að sögn Sigurðar var í upphafi samið um útgáfu fimm binda. Fljótlega hafi hins vegar komið í ljós að verkið yrði mun umfangsmeira og þykir honum raunhæfara í dag að bindin verði níu eða tíu talsins þegar upp er staðið.

Sigurður segir að búið sé að skrifa drög að tveimur næstu bindum, einungis eigi eftir að "fylla í skörðin, endurskoða, slípa og fága". Þar af leiðandi verði róið að því öllum árum að þau muni bæði, í það minnsta fyrra bindið, koma út á næsta ári. Mun sjötta bindið ná frá Siðaskiptum fram til um 1680 og hið sjöunda frá 1680 til aldamótanna 1800.