KNUTS SKUJENIEKS NÍU NÆTUR ÓÐINS Hrafn A. Harðarson þýddi Í níu nætur, í níu nætur hangi ég svarblár. Yfir höfði mér brakar Heimstréð, eilífur Askur Yggdrasils.

KNUTS SKUJENIEKS NÍU NÆTUR ÓÐINS Hrafn A. Harðarson þýddi Í níu nætur, í níu nætur hangi ég svarblár. Yfir höfði mér brakar Heimstréð, eilífur Askur Yggdrasils. Í níu nætur lemur vindurinn tréð, og hvít leiftur hýða það og slá, og gamall hjörtur bítur greinar þess

og ormar naga ræturnar.

Í níu nætur, í níu nætur

beygi ég og kvel sjálfan mig

Hrafninn Huginn á hægri hönd

Hrafninn Muninn á vinstri.

Og stormurinn hvín í myrku trénu.

Annar hrafninn geymir hugsunina í sarpnum

hinn hefur gætur á minninu.

Í níu nætur, í níu nætur

með skelfilegum gnístandi tönnum.

Sjálfur hef ég hert spjót mitt, sært það með eigin orðum,

sjálfur hef ég stungið mig því,

í níu nætur, í níu nætur.

Sjálfur hef ég snúið reipið og hnýtt snöruna -

og himinninn og jörðin ólga sem tjara

í níu nætur.

Í níu nætur mun ég að þrútna og spá.

Og spjótið mun losna og reipið slitna.

Væta tungu mína með visku.

Lesa rúnir, særa,

spá, græða, brenna skaðlegt kukl

og gala magnaða galdra.

Hvort býr í Miðgarði maður

sem getur neytt sjálfan sig á spjótið og í snöruna?

Og þú, sem rennur hland og mykja í æðum,

getur þú sært þig sem Óðinn sjálfan sig,

í níu nætur, í níu nætur?

Getur þú þjáðst svo vegna viskunnar,

rotnað svo fyrir ljóðið og endurfæðst?

Þannig barðist guðinn í níu nætur,

uns reipið varð þunnt sem strá,

og myrkrinu og óvissunni létti.

Og Yggdrasill rétti úr stofninum.

Höfundurinn, f. 1936 í Riga, er skáld í Lettlandi.