LJÓÐIÐ KEMUR TIL BAKA Flestir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára þekkja rödd Andrésar Björnssonar.

LJÓÐIÐ KEMUR TIL BAKA Flestir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára þekkja rödd Andrésar Björnssonar. Meðan hann var útvarpsstjóri hélt hann eftirminnilegar ræður á gamlárskvöld og allt frá því hann hóf störf á Útvarpinu árið 1944 var hann vinsæll lesari og flutti jafnt ljóð sem óbundið mál. Nú er kominn út geisladiskur með ljóðalestri hans. Í samtali við GUÐRÚNU GUÐLAUGSDÓTTUR segir Andrés m.a. frá kynnum sínum af ljóðum og viðhorfi sínu til ljóðagerðar.

ÖDD Andrésar Björnssonar býr yfir því látleysi sem fær góðan skáldskap til þess að njóta sín til fullnustu, um þetta sannfærist hver sá sem hlustar á flutning hans á hinum nýútkomna geisladiski. Strax í fyrsta ljóðinu, Skúlaskeiði eftir Grím Thomsen, gefur sjálfur raddblærinn til kynna karlmannlegan styrk og æðruleysi. Þótt aldrei bregði fyrir óviðeigandi tilfinningasemi í flutningi hans er eigi að síður auðfundið að lesarinn skynjar innra með sér þær ástríður sem ljóð þau búa yfir sem hann flytur hverju sinni. Hann leiðist ekki út á þá hættulegu braut að oftúlka heldur nær að marka róm sinn hlutleysi sem gefur áheyrandanum sjálfum möguleika á að taka afstöðu til efnisins.

Afar margar upptökur til

Með þessum einfaldleika í túlkun nær Andrés sterkum áhrifum í ljóðaflutningi sínum. Til þess að ná slíkum áhrifum þarf lesari að hafa á valdi sínu djúpa þekkingu á innihaldi og efnistökum hvers ljóðs. Andrés hefur enda frá barnæsku lagt sig eftir að lesa og læra ljóð, einkum eftir íslensk skáld, og í segulbandasafni Ríkisútvarpsins eru til afar margar upptökur með ljóðaflutningi Andrésar. En skyldi ekki hafa verið erfitt að velja ljóð á hinn nýútkomna geisladisk?

Ég ákvað að velja á þennan disk eingöngu ljóð eftir látna höfunda, það einfaldaði val mitt á ýmsan hátt. Þetta eru ljóð eftir góð skáld frá ýmsum tímum, þau elstu frá sautjándu öld," segir Andrés í upphafi samtals við blaðamann Morgunblaðsins. Í viðkynningu er Andrés afar hógvær maður, það er því til marks um þýðingu ljóðaþekkingar hans að hann lætur sig hafa að vera svolítið drýgindalegur yfir henni. Kvæðakunnáttan hefur fylgt mér svo lengi sem ég man og ég get ekki neitað því að ég er svolítið stoltur af henni, svo sem þegar hringt hefur verið í mig og ég spurður úr hvaða ljóði og eftir hvern ýmis ljóðabrot væru og þá hef ég stundum getað svarað," segir Andrés.

Í sveitinni heima

Andrés Björnsson las í fyrsta skipti upp ljóð í Ríkisútvarpið árið 1939. Þá las ég kvæði eftir Einar Benediktsson, Kvöld í Róm, og svo síðar ljóð eftir fleiri skáld. Stefán frá Hvítadal höfðaði mikið til mín um þetta leyti, hann var tilfinningamaður mikill, sjúkur maður, berklaveikur og fótarvana. Hann orti sín bestu kvæði í Noregi og dó tiltölulega ungur." Stefán var þó ekki í meira afhaldi hjá Andrési en ýmis önnur skáld þeirra tíma. Nýrómantíkin átti mörg góð skáld, Davíð Stefánsson og Stefán frá Hvítadal tilheyra, má ég segja, þeim hópi, þótt þeir hafi komið fram nokkuð seint.

Skáldskap Davíðs kynntist ég tíu ára og kunni að ég held hvert einasta kvæði hans í Svörtum fjöðrum utanbókar. Hann var afar vinsæll í sveitinni heima eins og raunar um allt land. Sama gilti um Söngva förumannsins, fyrstu ljóðabók Stefáns frá Hvítadal. Seinna hreifst ég af ljóðum Tómasar Guðmundssonar, Guðmundar Böðvarssonar og Steins Steinarrs og er raunar hrifinn af skáldskap þeirra enn í dag, þeir voru meira moderne" en hinir en eigi að síður eru þeir formfastir og góðir höfundar."

Eitthvað ósýnilegt

Skyldi Andrés eiga sér uppáhaldsljóð?

Það er vita ómögulegt að svara þessu, þau er svo mörg og það er dagamunur á afstöðu minni til þeirra. Engu að síður kemur ljóðið alltaf til baka ­ ef það er gott," svarar hann að bragði og bætir við: Það er sorglegt þegar skáld deyja út", en lífið er svona. Sumt er þó sígilt, ég veit ekki hvers vegna sum ljóð verða það, ég kann ekki að skýra hvað þau hafa við sig, það er ósýnilegt og óáþreifanlegt, en eitthvað er það. Hvað sjálfan mig snertir veit ég þó að ég legg verulega mikið upp úr efnistökum. Við höfum átt nokkuð mörg ákaflega snjöll ljóðskáld á þessari öld."

Á ljóðadiski Andrésar Björnssonar eru ljóð eftir ofan nefnd skáld nema Stefán frá Hvítadal og ýmis önnur að auki, þá Grím Thomsen, Guðmund Friðjónsson, Stefán Ólafsson, Bjarna Thorarensen, Sigurð Nordal, Sigurð Jónsson frá Brún, Matthías Jochumsson og Hallgrím Pétursson. Ég fékk til mín marga af gömlum ljóðalestrum mínum úr segulbandasafninu og hlustaði á þá. Ég varð að moða úr því sem best hafði geymst, þetta setti mér ákveðnar skorður, og fyrir vikið varð ég að sjá eftir mörgum dýrmætum ljóðperlum. Ég hafði gaman af ljóðalestrinum á sínum tíma og ég er ánægður með að þessi sýnishorn skuli nú vera komin á geisladisk og þar með í einskonar endurnýjun lífdaganna."

Áhrif Sigurðar Nordals

Andrés tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1937. Hann tók raunar inntökupróf í Menntaskólann í Reykjavík og fékk þar inngöngu en undi sem unglingur ekki sem skyldi í höfuðstaðnum og fór norður til að stunda sitt menntaskólanám. Ljóðlistin var þáttur í skólalífinu. Það var ekki aðeins að við færum stundum með kvæði í Menntaskólanum á Akureyri, við sungum þau við raust," segir Andrés.

Að stúdentsprófi loknu, lagði Andrés stund á íslensk fræði við Háskóla Íslands. Ég hafði þá í bakþönkunum að leggja að einhverju leyti fyrir mig skriftir og þetta nám virtist falla vel að þeirri fyrirætlan.

Þegar suður kom naut ég góðs af kynnum ýmissa mætra manna við bróður minn og alnafna, sem látist hafði í blóma síns lífs. Ég fæddist á dánardægri hans, ári eftir lát hans. Sigurður Nordal var einn skólabræðra hans og vina. Hann lét mig njóta bróður míns og var mér alla tíð afar góður. Hann hafði meðal annars forgöngu um að koma mér að hjá Útvarpinu. Hann las með okkur nemendum samtímabókmenntir, m.a. lét hann okkur stundum lesa ljóð og þóttist heyra að ég kynni vel að fara með þau. Ég hafði alltaf ljóð á hraðbergi og las mikið í útvarp er fram í sótti, t.d. oft með mönnum sem tekið höfðu saman svonefndar samfelldar dagskrár."

Mikill áhugi á skáldskap fyrir norðan

Andrés fór ekki strax að vinna hjá Útvarpinu eftir að hafa lokið cand. mag. prófi frá Háskóla Íslands árið 1943, það sama ár gerðist hann starfsmaður við BBC í London og var þar í eitt ár, þá hélt hann heim til Íslands og hvarf til starfa hjá Ríkisútvarpinu. Það datt fáum í hug að ég færi út í svo óverndað starf sem útvarpsvinnu, flestir hefðu álitið að ég færi að vinna á safni eða við kennslu," segir Andrés.

En hvað með ritstörfin, skyldi hann hafa fengist við þau að einhverju leyti samhliða starfi sínu?

Það fór nú svo að því meira sem ég las af ljóðum góðra skálda því fremur varð ég afhuga eigin ljóðagerð. Auðvitað hafði ég sett saman stökur, ég lærði snemma undirstöður bragfræði og var að basla við vísnagerð í fjósinu heima. Ég var áreiðanlega afar stoltur þegar mér tókst að koma saman rétt kveðinni vísu. Það var mikill áhugi á skáldskap og ljóðagerð og margir fengust við að yrkja fyrir norðan, eins og bæði fyrr og síðar," svarar Andrés.

Ólst upp við kvennaríki"

Þess ber að geta að eitt af efnilegri skáldum Norðlendinga þessa tíma hafði verið Andrés Björnsson eldri, eini bróðir Andrésar okkar Björnssonar. Systur áttu þeir bræður sjö, allar eldri en Andrés yngri. Föður sinn, Björn Bjarnason bónda að Brekku í Seyluhreppi í Skagafirði, missti Andrés níu ára gamall og var hann eftir það alinn upp af móður sinni Stefaníu Ólafsdóttur og systrum.Það kom enginn karlmaður nálægt uppeldi mínu eftir að pabbi dó, mamma og systur mínar tóku allar ákvarðanir sem mig áhrærðu. Ég bjó við mikið kvennaríki" í æsku, og allar áttu þessar konur góðu langlífi að fagna svo ég naut lengi þeirrar umhyggju," segir hann og hlær við.

Enn er talinu snúið að bragfræði, vísnagerð og íslenskri tungu. Skyldi íslenskan vera sérstaklega vel fallin til ljóðagerðar?

Ég veit það ekki, hitt veit ég að það skiptir miklu máli hvar áherslupunktarnir liggja, Finnar skilja dönskuna okkar mun betur en Dana sjálfra, það er vegna þess að Finnar hafa áhersluna á fyrsta atkvæði orða eins og við. Eitt sinn kom ég á fund til Finnlands og hitti þá ungan mann sem hafði fyrr um sumarið setið námskeið í Danmörku. Þar hafði hann ekki skilið eitt einasta orð en hann kvaðst skilja hvert orð í minni dönsku, það gerðu áherslurnar."

Skáldskapur nútímans

En hvað með skáldskap nútímans?

Það eru margir sem stunda ljóðagerð í landinu, af því sést að það eru margir sem hafa áhuga á skáldskap," svarar Andrés. Sem dagskrárstjóri Útvarpsins kom Andrés með ýmsu móti að ljóðlistinni. Það komu margir til mín með ljóð sem þeir vildu flytja í útvarpið. Ég fór yfir þau og lagfærði þau stundum svolítið, það er að segja umgjörð þeirra, menn deila ekki um smekk," segir hann.

Andrés starfaði við Ríkisútvarpið í 40 ár að undanskildum tveimur árum sem hann kenndi við Háskóla Íslands. Mér fannst mjög gaman að kenna og hefði kannski átt að halda því áfram," segir hann. Og þó. Ég sagði Símoni Jóh. Ágústssyni prófessor frá því hvað mér þætti gaman að kenna. Hann dró við sig svarið en sagði svo: Manni finnst þetta fyrst.

Les alltaf stundarkorn á kvöldin

Eftir að Andrés hætti störfum sem útvarpsstjóri hefur hann fengist við ritstörf. Margt liggur eftir hann á því sviði, svo sem ritgerðir um Grím Thomsen og fleira og einnig þýðingar á efni af ýmsu tagi.Frá seinni árum á ég sitt hvað af ýmsum toga í handriti ­ en á mörgu ólokið," segir hann og beinir með höfuðhnykk athygli minni að handritum í bókahillunni á veggnum á móti mér. Samtal okkar hefur farið fram í bókaherberginu á heimili Andrésar og Margrétar Helgu Vilhjálmsdóttur konu hans að Hofsvallagötu 62. Hillurnar þar eru fullar af bókum og margar þeirra geyma ljóð af ýmsu tagi ­ en þeim bókum er ekki flett eins oft og áður var. Seinni árin hef ég æ minna lesið af ljóðum en les þess í stað meira af óbundnu máli, ég hef líka gaman af ættfræði, sagnfræði og mörgu slíku. Ég les alltaf stundarkorn á kvöldin, það er gamall vani. Ég get ekki verið svo að hafa ekki bók við höndina," segir Andrés við mig þegar ég stend upp til þess að kveðja. Hann fylgir mér fram í forstofu og gengur sjálfur út á undan mér til þess að athuga hvort hálka sé á stéttinni fyrir utan húsið. Vandað hugarfar kemur fram í öllu sem menn gera, hvort heldur sem þeir fylgja gestum sínum úr hlaði eða lesa ljóð fyrir alþjóð.

Morgunblaðið/Golli Andrés Björnsson