MENN Í EVRÓPU FYRIR MILLJÓN ÁRUM GÍSLI SIGURÐSSON TÓK SAMAN Steingerð mannabein sem nýlega hafa fundizt í Alapuerca á Spáni, eru samkvæmt mælingum um milljón ára gömul.

MENN Í EVRÓPU FYRIR MILLJÓN ÁRUM GÍSLI SIGURÐSSON TÓK SAMAN Steingerð mannabein sem nýlega hafa fundizt í Alapuerca á Spáni, eru samkvæmt mælingum um milljón ára gömul. Þarmeð er ljóst að Hinn upprétti maður hefur haldið norður á bóginn og vestur í Evrópu áður en til þessa hefur verið talið.

ALIÐ HEFUR verið að Homo erectus,- hinn upprétti maðurhafi labbað norður eftir Austur-Afríku fyrir um það bil milljón árum og síðan tekið stefnu austur á bóginn, til Kína og austur á Jövu, þar sem ýmsar minjar hafa fundizt um hann. Enginn veit hversu ógnarlangan tíma það tók, en Sá upprétti var þá orðinn býsna seigur veiðimaður; hann var farinn að ráða við stór veiðidýr og við það batnaði í búi hjá honum og mannfjöldinn fór í fyrsta sinn að vaxa svo um munaði. Jafnframt hefur Sá upprétti gengið á stofna veiðidýra og orðið að færa sig á nýjar og nýjar veiðilendur. Saga ofveiða er ekki alveg ný af nálinni.

Haldbærar upplýsingar eru til um Pekingmanninn svonefnda og frænda hans, Javamanninn. Það hefur hinsvegar virst hulin ráðgáta, hversvegna aðrir frændur hafa ekki fundizt í Evrópu. Hversvegna leituðu engir vestur á bóginn þegar komið var fyrir botn Miðjarðarhafsins. Var þar engin veiðidýr að hafa?

Helftin af þróunarsögu mannkynsins hefur átt sér stað á síðasta kulda- eða ísaldaskeiði, sem hófst fyrir tveimur milljónum ára og lauk fyrir um 10 þúsund árum. Seint á þessu skeiði náði ísaldarjökullinn suður í Mið-Evrópu og sunnan við hann hefur trúlega verið ákaflega harðbýlt fyrir fólk sem bjó í hellum og klæddist frumstæðum skinnfatnaði.

Talið hefur verið að Neanderdalsmaðurinn væri frumbyggi í Evrópu og menn hafa ekki vitað til þess að aðrir hafi byggt álfuna á undan honum fyrr en þá kannski nú. Neanderdalsmaðurinn hefur lengi verið ráðgáta. Elztu minjar um hann eru 200 þúsund ára gamlar, en fyrir um 40-35 þúsund árum, eða nokkru áður en íslöldinni lauk, virðist hann hafa dáið út og þá ef til vill vegna þess að honum var ekki áskapað að geta myndað tungumál. Reynslan gat ekki flutzt með tungumálinu frá einni kynslóð til annarrar.

Við erum ekki afkomendur Neanderdalsmannsins eftir því sem talið er víst, heldur er Cro-Magnon maðurinn fyrsti Evrópumaðurinn sem lifir áfram og lifir í nútíma Evrópubúum. Hann er talinn hafa verið greindari en Neanderdalsmaðurinn og hefur í krafti vitsmuna sinna getað lifað af þegar harðnaði á dalnum.

Hinar elztu verklegu minjar um þennan forföður okkar hafa fundist í desember 1994, nærri Avignon í Suður Frakklandi. Þar opnaðist hellir, sem áður hafði verið luktur og komu í ljós málverk á hellisveggjunum sem sýna að þar voru snjallir listamenn á ferð. Menn höfðu haldið áður að hellamálverkin kennd við Laxcaux í Frakklandi væru elzt slíkra verka, en við kolefnismælingar kom í ljós, að hellirinn við Avignon hafði að geyma ennþá eldri málverk, 30.300 - 32.400 ára gömul á móti 17.000 ára gömlum myndum í Lascaux. Þetta var því geysilega merkur fundur. En þótt 15 þúsund ár kunni að vera í milli er ekki eins og einhver ósköp hafi gerst í list hellafólksins og það er enn sami leyndardómurinn, hver tilgangurinn var með þessum myndum. Allt sem mönnum hefur komið til hugar í því sambandi eru einungis tilgátur.

Sé litið til þess að Neanderdalsmaðurinn hafi verið kominn til Evrópu fyrir um 200 þúsund árum, þá má segja að þessi hellamálverk séu svo ung, að þau eru eiginlega síðan í gær. En hvenær urðu þau sögulegu tímamót, þegar menn komu í fyrsta sinn einhversstaðar að austan og settust að í Evrópu? Nýleg uppgötvun á Spáni færir þann atburð heldur betur aftur í tímann.

Vísindamenn sem voru við rannsóknir á miðhluta Spánar, þar sem heitir Atapuerca, uppgötvuðu steingerð mannabein svo gömul að þeir ætluðu ekki að trúa niðurstöðu fyrstu mælingarinnar. Hún sýndi að beinin og steinaldarverkfæri sem fundust með þeim, væru að minnsta kosti 780 þúsund ára gömul, og sennilega þó nær því að vera milljón ára. Við tvær endurmælingar kom sama niðurstaða í ljós. Þarmeð var ljóst að tímaskeið mannsins í Evrópu hafði verið lengt um meira en helming. Svo örugg þótti þessi niðurstaða vera, að vísindamenn, sem hafa annars tilhneigingu til að fara varlega, töldu óhætt að fullyrða að á tímabilinu frá 800 þúsund til milljón ára hafi menn verið í Evrópu.

Leyfar beinanna eru af fjórum einstaklingum; eitt þeirra af barni. Nú er spurningin: Eru þarna vísbendingar um forföður Neanderdalsmannsins. Fyrirrennari hans hefur verið nefndur homo heidelbergensis, kenndur við Heidelberg í Þýzkalandi. Hann er talinn hafa verið kominn á þær slóðir fyrir um 400 þúsund árum. Í Evrópu hafa menn ekki fundið eldri leyfar af mönnum þar til nú. En þarna er ekki bara vísbending, heldur vissa um það, að Sá upprétti hefur í einhverjum mæli snúið vestur á bóginn þegar kom fyrir botn Miðjarðarhafsins fyrir um það bil milljón árum, eða kannski talsvert fyrr. Við verðum að gera því skóna, að það hafi tekið sinn tíma að komast allar götur vestur á Spán. Reyndar er með nokkrum ólíkindum að leyfar þessa manns finnist fyrst þar. Öllu líklegra hefði verið að rekast á þær austar í Evrópu. Þeir sem fundu þessi steingerðu bein á Spáni eru líka vissir um að önnur jafngömul, eða eldri, eigi eftir að finnast á Balkanskaga eða Ítalíu. Það muni taka sinn tíma, en nú sé fengin vissa fyrir því, að Evrópa hafi verið byggð mönnum í milljón ár.

ANNAÐ en hluti af hauskúpu og bein úr kjálka fannst ekki af þessum manni, sem lifði á Spáni fyrir 800.000- 1.000.000 árum. Það er samt sönnun þess að menn eru búnir að vera í Evrópu að minnsta kosti eins lengi.

ELZTA hellamálverkið, 30-32 þúsund ára gamalt, fannst nýlega nálægt borginni Avignon í Frakklandi. Það er um 4-6 þúsund árum eldra en styttan Venus frá Willendorf, sem áður var talin elzta listaverk heimsins, en sýnir samt ótrúlega færni.