RÓSIN EFTIR BJÖRGU FINNSDÓTTUR ETTA VAR þriðja vikan sem hann var settur í að þrífa klósettin.

RÓSIN EFTIR BJÖRGU FINNSDÓTTUR

ETTA VAR þriðja vikan sem hann var settur í að þrífa klósettin. Allir sjúklingarnir voru skikkaðir í einhver morgunverk, einn var settur í skúringar, annar í að bóna, þurrka af og því um líkt, en venjan var að hafa verkaskipti hverja viku.

En nú var hann skikkaður í mesta skítverkið af öllu, þriðju vikuna í röð. Hann var sannfærður um að það viðgengist stéttaskipting á áfengishælinu, því nýi sjúklingurinn, hún Steinunn, hún var bara sett í að þurrka af, en hún var líka hóteleigandi, ekkja eftir Ingólf á Hótel Túndru og Hótel Túndra var flottasta hótel á landinu, eina hótelið sem gat státað af því að vera fimm stjörnu hótel. Ingólfur og Viggó höfðu verið samtímis í Þjónaskólanum. Viggó hafði dreymt um að reka fínasta hótel á landinu, eftir að hann lauk þjóninum, en um sama leyti var hótelið á Lauffirði, þaðan sem Viggó var, til sölu og enn í dag rak hann Hótel Lauffjörð.

"Má bjóða þér konfekt?" Hann hrökk upp frá þessum endurminningum sínum. Steinunn var komin með stóran konfektkassa upp að klósettskálinni sem hann var að þrífa. "Já, þakka þér fyrir, kannski að ég þiggi einn mola."

Steinunn hélt enn þá konfektkassanum upp að klósettskálinni og sagði: "Af því að þú ert nú þjónn, Viggó, þá langar mig að biðja þig að bjóða hinum sjúklingunum konfektmola úr þessari öskju."

Þegar hann hafði lokið morgunverkinu sínu, bauð hann úr konfektkassanum. "Nei, en þú sætur," sagði Ellen, einn sjúklinganna. "Nei, þetta er ekki frá mér," sagði hann. "Hverjum þá?" sagði hún. "Nú, en frá millanum," sagði hann, "hún bað mig að bjóða ykkur af þessu, af því að ég er þjónn, heldurðu að hún sé hrifin af mér, Ellen?"

Hann gat borið allt undir Ellen, því hún og Viggó voru trúnaðarvinir. "Já, þetta gæti verið tákn um að hún sé hrifin af þér, að hún sé ekki einungis að biðja þig að gera þetta af því að þú sért þjónn."

"Heldur þú kannski að ég eigi von um að giftast henni og reka Hótel Túndru?" Viggó mundi eftir Steinunni, þegar hún og Ingólfur voru að byrja að draga sig saman. Það voru að verða þrjátíu ár síðan. Þá voru þeir báðir í Þjónaskólanum og nú var Ingólfur dáinn og Steinunn ekkja. Nei, hún mundi aldrei líta á hann, fyrst þessir djöflar þurftu að niðurlægja hann með því að hafa hann í þessu "skítajobbi", viku eftir viku. Og þegar átti að setja hann fjórðu vikuna í röð í það sama, kvartaði hann. Starfsstúlkan sagði bara: "Þetta starf er ekki á neinn hátt öðru starfi hér ómerkilegra, og ekki orð um þetta meir!"

Þrátt fyrir þennan ósigur kom Steinunn til hans einn morguninn, þegar hann var að störfum og laut niður að klósettskálinni og bauð honum enskan brjóstsykur og bað hann jafnframt að bjóða hinum. "Þarna sérðu," sagði Ellen "hún er hrifin af þér, hún er alltaf að sýna það." "Hvernig get ég verið viss um það?" sagði Viggó. "O, hún á eftir að fullvissa þig um það, sannaðu til, Viggó minn."

Nú var að byrja hans sjötta vika á drykkjumannahælinu, en sú þriðja hjá Steinunni og enn var hann í klósettvinnunni. Í dag var mánudagur og í dag skyldi hann útskrifast. "Þegar þú ert búinn að borða morgunmatinn og þrífa klósettin, ert þú útskrifaður lagsmaður," sagði Örn læknir við Viggó. Velmettur af morgunmatnum fór Viggó að venju á klósettin til starfa, og viti menn, oní fyrstu klósettskálinni blasti við honum afskorið blóm "rós". Yndisleg rauð rós.

Höfundur hefur gefið út bók, "Í sólskinsskapi, 1987". Hefur unnið við barnakennslu.