Borgarastyrjöldin í Líbanon Deilt um hvort uppgjörið sé tímabært Áður en borgarastyrjöldin í Líbanon braust út 1975 var kvikmyndagerð með töluverðum blóma, skrifar Jóhanna Kristjónsdóttir.

Borgarastyrjöldin í Líbanon Deilt um hvort uppgjörið sé tímabært Áður en borgarastyrjöldin í Líbanon braust út 1975 var kvikmyndagerð með töluverðum blóma, skrifar Jóhanna Kristjónsdóttir. Nú sex árum eftir að friður komst á deila menn um hvort tímabært sé að gera kvikmyndir um stríðið.

VIKMYNDAGERÐARMENN í Líbanon hafa verið í sviðsljósinu upp á síðkastið því umræður eru miklar um hvort rétt sé að hefja framleiðslu mynda um hið hatrammlega borgarastríð í landinu 1975-1990. Sjóðir eru rýrir og kvikmyndagerðarmenn kvarta einnig undan því að ritskoðun sé mjög ósveigjanleg. En fyrst og fremst greinir menn á um hvort líbanska þjóðin sé reiðubúin að horfa á myndir af ófriðnum.

Þótt líbanski kvikmyndaiðnaðurinn hafi verið öflugur komst hann aldrei með tærnar þar sem Egyptar höfðu hælana. En Líbanir hafa lengi haft mikinn áhuga á kvikmyndum og hafa átt nokkra mjög snjalla menn í þessari grein. Nýjasta mynd þeirra var "Al Sheikha" sem var fjármögnuð af Svíum. Sú mynd snerist um baráttu götubófa sem fóru um með ránum og ofbeldi. Þessi mynd var gerð 1995 og lyktir urðu að hún var aðeins sýnd í einu líbönsku kvikmyndahúsi og gestir á hana rétt losuðu tólf þúsund. Samtímis streyma tugþúsundir á ofbeldismyndir frá Hollywood en þær eru langvinsælastar í Líbanon og egypskar kvikmyndir hafa ekki roð við þeim.

Allt hefur hrokkið áratugi aftur í tímann

Borhane Alawiyeh, kvikmyndaleikstjóri, kvartar undan því að líbönsk kvikmyndahús séu illa tækjum búin en öllu verra sé þó að kvikmyndagerðarmenn séu enn verr á vegi staddir hvað varðar tæki og búnað og því sé kvikmyndaframleiðsla þar hrokkin áratugi aftur í tímann. Það hafi einnig komið á daginn að líbönsk stjórnvöld séu treg til að styðja þessa listgrein og marga gruni að þar ráði mestu að þau óttist að sjá hvaða augum líbanskir listamenn líti stríðið og hvernig það yrði túlkað á hvíta tjaldinu.

Ghassan Abou Chakra sem er yfirmaður kvikmyndadeildar menningarmálaráðuneytisins segir að það liggi í augum uppi að endurreisn Líbanons úr rústum taki sinn tíma og menn hafi orðið að ákveða hvað yrði að bíða og hvað ætti að hafa forgang. Hann segir að nú sé verið að undirbúa sjóðsstofnun sem veitti styrki bæði til handritagerðar og síðan framleiðslu mynda. Á hinn bóginn geti ekki talist nema eðlilegt að þeir sem veiti styrk til verkefna vilji sjá að þar sé fagmannlega að öllu staðið. Það eigi við um þessa listgrein og komi ekki ritskoðun við.

En enginn andmælir því að í Líbanon sæta ákveðin mál ritskoðun. Ekki má fjalla um ágreining vegna trúmála, siðsemi skal gætt í hvívetna og ekki skal gagnrýna "bræðraþjóðir" og er þar vitanlega átt fyrst og fremst við Sýrlendinga. Þeir stjórna í reynd Líbanon enn og hafa ekki sýnt merki þess að þeir hyggist flytja á braut 35 þúsund sýrlenska hermenn sem eru í landinu.

"Berjumst gegn minnisleysi" eða "gerum glaðar myndir"

Borhane Alawiyeh sem áður er nefndur er mjög eindreginn talsmaður þess að gerðar verði myndir um stríðið. "Við verðum að berjast gegn þessu minnisleysi sem má líka kalla afneitun," segir hann. "Það er firra að ætla sér að skrifa handrit sem kemur ekki inn á stríðið. Líbanskir borgarar vilja sjá og skilja hvað gerðist og þeir eiga rétt á því."

Borgarastríðið hófst þegar Palestínumenn gerðu árás á hóp kristinna og síðan breiddist þetta út og endaði með að allir börðust við alla.

Alan Plisson sem stofnaði fyrsta kvikmyndaklúbb í Líbanon fyrir fjörutíu árum segir hins vegar að auðvitað eigi menn ekki að gleyma því sem gerðist. "En við eigum að láta minningarnar eiga sig um sinn, en ekki að velta okkur upp úr því sem var."

Hann kveðst einnig vilja benda á sem hálfgildings hliðstæðu að það hefði tekið Bandaríkjamenn mörg ár eftir Víetnamstríðið að gera bitastæðar myndir um það. Plisson segir að fólk vilji fara í bíó til að hlæja og bendir á aðsókn að líbanskri myndaröð sem er svona einhvers staðar á milli Dallas og mexikóskra sápumynda, máli sínu til stuðnings. Plisson hefur síðustu ár kennt kvikmyndasögu og kvikmyndagerð við einkaskóla í Beirút. "Á fjórða ári búa nemendur mínir til 20 mínútna mynd. Næstum allar eru um dauða, ofbeldi, sjálfsmorð og um alnæmissjúkt fólk. Aldrei neitt skemmtilegt eða glatt. Þessi unga kynslóð er sjúk og einblínir á skelfilega atburði. Þessu þurfum við að snúa við," segir Plisson.

"Enginn hjálpar okkur að skilja stríðið"

Aðrir henda orð hans á lofti sem merki um að ungt fólk sem hefur áhuga á kvikmyndagerð í Líbanon sé með þessu að sýna að það hafi ríka þörf fyrir að fá að búa til veruleika sem var í landinu þó því sé meinað að heimfæra hann beint upp á Líbanon.

Einn frægasti leikstjóri landsins var án efa Maroun Bagdadi sem lést fyrir þremur árum. Hann leikstýrði m.a. frönsku myndinni "L'Otage" en hún var gerð eftir bók franska blaðamannsins Roger Auque sem var rænt í borgarastyrjöldinni. Yasmine, ung stúlka sem er við nám í kvikmyndagerð segir að þessi mynd hafi haft stórkostleg áhrif á sig og félaga sína. "Eftir að við sáum hana söfnuðumst við saman og töluðum í marga kukkutíma um stríðið og við reyndum að skilja það. En sum okkar brotnuðu niður og sjálf kastaði ég upp og þessar samræður leiddu ekki til neins. Við spurðum og spurðum hvert annað en við áttum engin svör því enginn hjálpar okkur að skilja það sem gerðist. Við getum ekki tekist á við þennan tíma nema einhver skýri hann út fyrir okkur. Það er ekki nóg að sýna eina mynd með ömurlegum atburðum ef þeir leiða ekkert í ljós annað en að þetta gerðist," sagði Yasmin í viðtali við Jordan Times.

Ghassan Abou Chakra, deildarstjóri kvikmyndadeildarinnar segir að það sé ekki fjarri lagi að leyft verði að gera myndir um aðskilnað fjölskyldna með stríðið í bakgrunni. En alls ekki um stríðið sjálft. "Það er of snemmt enn."

Nú er aðeins eitt kvikmyndaver í Líbanon og allt þar er heldur úr sér gengið. Um það leyti sem stríð skall á voru fjögur glæsileg kvikmyndaver í landinu og Egyptar gerðu allt að 25 myndir á ári þar auk mynda sem Líbanir framleiddu sjálfir.

ÞEGAR borgarastyrjöldin í Líbanon var í algleymingi voru sprengingar daglegt brauð. Hér sjást björgunarmenn að störfum í Vestur-Beirút eftir að bílsprengja varð 20 manns að bana í desember 1983.

Í Líbanon sæta ákveðin mál ritskoðun