Reykjavíkurborg og Kjalarnes ræða hugsanlega sameiningu Brúargerð forsenda sameiningar Reykjavíkurborg og Kjalarneshreppur hafa tekið upp viðræður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna.

Reykjavíkurborg og Kjalarnes ræða hugsanlega sameiningu Brúargerð forsenda sameiningar Reykjavíkurborg og Kjalarneshreppur hafa tekið upp viðræður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Fyrir Kjalarnes er helsti hvatinn slæmur fjárhagur en fyrir Reykjavík nýtt framtíðarbyggingarland. Kristín Gunnarsdóttir kynnti sér kosti og galla sameiningar.

IÐRÆÐUNEFNDIR skipaðar fulltrúum Reykjavíkurborgar og Kjalarneshrepps um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna hafa átt nokkra fundi og sagði Pétur Friðriksson oddviti Kjalarneshrepps, að borgaryfirvöld væru að skoða viðræðuramma sem hreppurinn hafi lagt fram. Verið væri að fara yfir fjármál og skipulagsmál hreppsins og kynna í stofnunum borgarinnar. Reykjavíkurborg er stærsti landeigandinn á Kjalarnesi og á jörðina Víðines, hluta af Álfsnesi og lönd sem liggja að nesinu, auk þess Saltvík og Arnarholt.

Ekki í sama kjördæmi

Reykjavík og Kjalarneshreppur eru hvort í sínu kjördæminu og í sveitarstjórnarlögum segir í 110 gr. að sameining sveitarfélaga yfir kjördæmamörk verði ekki nema með lögum. Að sögn Sesselju Árnadóttur, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, er ekki sjálfgefið að sameining geti gengið upp vegna ákvæða í stjórnarskrá um kjördæmaskipan. Breyta þyrfti stjórnarskránni og til þess þyrfti samþykki tveggja þinga í röð og kosningu til Alþingis milli þinga. Í lögum um sameiningu er ekki gert ráð fyrir að þessi staða geti komið upp, að sögn Sesselju. Benti hún á að engin lög bönnuðu að sveitarfélag væri í tveimur kjördæmum, en framkvæmdahliðin gengi tæplega upp til dæmis varðandi kosningar. Ekki eru allir sammála túlkun ráðuneytisins og sagðist Pétur ekki vita betur en að í félagsmálaráðuneytinu lægi lögfræðiálit sem Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi ráðherra hafi látið vinna. Þar komi fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að sveitarfélag sé í tveimur kjördæmum.

Skulda rúmar 100 milljónir

Fyrir þremur árum var kosið um sameiningu Seltjarnarness, Reykjavíkur, Mosfellsbæjar, Kjalarnes- og Kjósarhrepps og voru andstæðingar sameiningar í hreppnum 60% íbúa, enda mælti enginn með sameiningunni að sögn Péturs. Á almennum borgarafundi sem haldinn var á Kjalarnesi fyrir skömmu var gerð grein fyrir fjárhag sveitarfélagsins og kynntar þær hugmyndir sem uppi eru um sameiningu við Mosfellsbæ og/eða Reykjavík. Þar kom fram að hreppurinn skuldar rúmar 100 milljónir. Íbúar eru um 500 og voru skatttekjur rúmar 50 milljónir árið 1995 samkvæmt ársskýrslu en áætlað er að tekjur verði rúmar 75 millj. á næsta ári að sögn Péturs.

Þrír möguleikar

"Menn eru að velta fyrir sér mögulegri framtíðarstefnu sveitarfélagsins," sagði Reynir Kristinsson en hann á sæti í nefnd um hugsanlega sameiningu fyrir hönd Kjalarneshrepps. "Við eigum þrjá möguleika, að standa áfram einir og sér, að sameinast Mosfellsbæ eða að sameinast Reykjavík. Það eru viðræður í gangi annars vegar við Mosfellsbæ og hins vegar við Reykjavík og þær eru í raun ekki komnar mjög langt. Það hefur ekki verið gerð nein könnun meðal almennings um hver viðhorfin eru til sameiningar." Reynir sagði að fjárhagur sveitarfélagsins væri þungur og hafi verið það undanfarin ár. "Það er verið að vinna í honum," sagði hann. "Það lítur út fyrir að rekstrargrundvöllur sé fyrir sveitarfélagið, en þó erfiður."

Erfiður rekstur

Að sögn Péturs er það fyrst og fremst erfiður rekstur sveitarfélagsins sem varð til þess að samþykkt var tillaga í hreppsnefndinni um að kanna möguleika á samstarfi eða sameiningu við öll önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Kannaður var möguleiki á að sameinast Mosfellsbæ en horfið var frá því þegar í ljós kom að enginn fjárhagslegur ávinningur yrði af þeirri sameiningu. Þrátt fyrir það hafi bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ óskað eftir að nánar yrði rætt um samvinnu milli sveitarfélaganna en engin niðurstaða er komin í þeim viðræðum. "Það má kannski segja að ástæðan fyrir því að þessar samræður við Reykjavíkurborg fara af stað núna sé sú, að við eigum samning við Reykjavíkurborg um urðun sorps í Álfsnesi og við ákváðum að reyna að selja þennan samning síðastliðinn vetur," sagði Pétur. "Við vorum búnir að finna kaupanda að samningnum og buðum borginni forkaupsrétt. Því var mótmælt af borginni og talið óeðlilegt og var óskað eftir viðræðum við okkur um breytingar á samningnum. Það má segja að upp úr því hafi menn farið að ræða aðra möguleika." Rædd var hugsanleg samvinna um deiliskipulag á Álfsnesi sem leiddi síðan til þeirra viðræðna sem nú standa yfir.

Þjónusta og samgöngur

"Að halda uppi þjónustustiginu í hreppnum er aðalávinningurinn með sameiningunni og svo eru það samgöngumálin," sagði Pétur. "Þetta eru langstærstu málin að ná fram. Betri samgöngur með brúnni yfir í Geldinganes, Gunnunes og áfram yfir í Álfsnes. Þegar Álfsnes byggist upp þá flyst þjónustan og atvinnan nær fólkinu sem býr uppfrá og samgöngur batna."

Pétur sagðist ekki reikna með að sveitarfélagið bæri kostnað af sameiningunni fyrir utan þann kostnað sem verður við sjálfa kosninguna. "Samkvæmt lögum um jöfnunarsjóð fylgir hverju sveitarfélagi ákveðin upphæð úr sjóðnum og áætlað er að okkur fylgi 40 milljónir í heimanmund ef svo mætti segja inn í sameininguna," sagði hann. "Þetta er hátt í helmingur af neikvæðri stöðu okkar."

Pétur sagði að rekstrarútgjöld hreppsins myndu sparast með sameiningunni og væri meðal annars gert ráð fyrir að borgin tæki við yfirstjórn hreppsins en í dag er kostnaður við hana um 9 milljónir á ári. Gallinn sem hann sæi við sameininguna væri að stjórn sveitarfélagsins flyttist fjær fólkinu og hver íbúi hefði minni áhrif. "Það er stærsti gallinn," sagði hann.

Breyting á byggðaþróun

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði að viðræður um sameiningu við Kjalarnes væru í ágætum farvegi en dráttur hafi orðið á vegna annríkis við gerð fjárhagsáætlunar. Hjá borginni væru menn meðal annars að kynna sér fjármál hreppsins. "Það er auðvitað ljóst að staðan þar er slæm en þó það vegi þungt fyrir lítið sveitarfélag þá er ekki þar með sagt að það geri það í Reykjavík," sagði hún. "Ef til vill má ná fram margvíslegri hagræðingu þannig að hægt verði að reka þennan kjarna á nokkuð sjálfbæran hátt."

Ingibjörg Sólrún sagði að helsti kostur sameiningarinnar væri aukið byggingarland fyrir borgina, sem myndi breyta byggðaþróun í höfuðborginni úr austur/vesturbyggð í norður/suðurbyggð. "Ég held að það sé mikilvægt hvort sem er út frá umferðarsjónarmiði eða gæðum lands," sagði hún.

Borgarstjóri benti á að hvað þjónustu varðaði þá væri einsetinn grunnskóli fyrir hendi á Kjalarnesi og leikskóli. "Við yrðum að þjónusta þá með almenningsvögnum," sagði hún. "En það verður að vera samningsatriði á milli okkar hver tíðnin yrði milli vagna. Hún getur ekki orðið sú sama í þessu byggðarlagi og er í þéttbýlli hverfum."

Svæðisráð eða hverfisstjórn

Ingibjörg Sólrún sagði að verið væri að ræða um að setja upp svæðisráð eða hverfisstjórn, þó ekki með sama hætti og hugmyndin væri að setja upp í Grafarvogi þar sem er um 20 þúsund manna byggð. "Við getum ekki verið með hverfisskrifstofu en við getum verið með hverfis- eða svæðisráð, sem væri með í ráðum um allar ákvarðanir sem máli skipta," sagði hún. "Það yrði að gera ráð fyrir sérstökum viðtalstímum hvort sem um væri að ræða mál er varða félagsmálastofnun, skólaskrifstofu eða aðra þjónustu. Þá mætti hugsa sér að ákveðinn umboðsmaður sæi um tengsl í öllum málum við stjórnsýsluna í Ráðhúsinu."

Brúargerð forsenda

Borgarstjóri segir að sameiningin standi og falli með brúargerð frá Gunnunesi yfir í Álfsnes. "Það er gert ráð fyrir því við vegaáætlun núna að byrjað verði á brúnni árið 1999 og að hún verði byggð um aldamótin," sagði Ingibjörg Sólrún. "Það þarf að fjármagna hana með sérstökum hætti eins og til dæmis er gert með Hvalfjarðargöngin og aðrar stórframkvæmdir. Öðruvísi verður hún ekki byggð. Þessi brúargerð er ekki eingöngu mikilvæg fyrir Kjalarnes heldur skiptir hún sköpum fyrir þessa byggð okkar í Grafarvogi og Borgarholti."

Borgarstjóri sagðist í fljótu bragði ekki sjá neina galla við sameiningu. Byggðarlagið yrði ekki í beinum tengslum við borgina til að byrja með og það væri alltaf umhendis. "Auðvitað er það alltaf galli að taka á sig skuldir en þá verður að vega það og meta í ljósi framtíðarhagsmuna borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins," sagði hún.

40 millj. í heimanmund

Ekki í sama kjördæmi

Morgunblaðið/Árni Sæberg

VIÐ Hofsvík á Kjalarnesi er þéttbýliskjarni byggðarinnar.