Brunaslys á börnum algeng í jólamánuði NÝ rannsókn á vegum Barnaspítala Hringsins leiðir í ljós að brunaslys á börnum eru mun algengari í desember en aðra mánuði ársins, að sögn Herdísar Storgaard barnaslysafulltrúa hjá Slysavarnafélagi Íslands.

Brunaslys á börnum algeng í jólamánuði

NÝ rannsókn á vegum Barnaspítala Hringsins leiðir í ljós að brunaslys á börnum eru mun algengari í desember en aðra mánuði ársins, að sögn Herdísar Storgaard barnaslysafulltrúa hjá Slysavarnafélagi Íslands. Skýringin liggur að hennar mati m.a. í lítilli fyrirhyggju foreldra þegar börn taka þátt í jólabakstrinum og í því að oft sé ógætilega farið með kerti í návist kornabarna.

Herdís hvetur foreldra til að leyfa börnum að taka þátt í jólabakstri en aðgát skal höfð. "Margir flaska á að kæla bakstursplöturnar þar sem óvitar ná auðveldlega til en einnig er algengt að börnin brenni sig á eldavélarhellum."

Í desember eru kertaljós algeng heimilisprýði. Börn heillast af loganum og oft kemur fyrir að þau brenni sig illa á kertavaxi. "Brýna þarf fyrir þeim að leika sér aldrei að kertum en sprittkerti eru sérstaklega varasöm því auðvelt er að velta þeim um um koll."

Herdís segir það sama eiga við um útikertin en dæmi eru til að börn jafnt sem fullorðnir stígi á þau og slasist þegar sjóðheitt vaxið slettist á leggina. "Forðast skal að hafa kertin í alfaraleið en hægt er til dæmis að stinga þeim í blómapotta."

Húsbrunar algengir

Í desember eru húsbrunar einnig mun algengari en aðra mánuði ársins meðal annars vegna jólaskreytinga með kertum í, að sögn Herdísar. "Gott ráð er að setja kertin í álhólka svo þau brenni ekki ofan í skreytinguna." Hún bendir á að í verslunum fæst sjálfvirkur kertaslökkvari sem drepur logann þegar lítið er eftir af kertinu og einnig eru víða seld sjálfslökkvandi kerti. "Hættan á húsbruna eykst ef kerti eru haft í nánd við opinn glugga því gluggatjöld geta hæglega feykst í logann."

Ráð við brunasári

Ef barn fær brunasár t.d. við að reka lófann í heita eldavélarhellu getur góð kæling skipt sköpum. Best er að sögn Herdísar að kæla lófann í 18-20 gráðu heitu vatni en aldrei undir rennandi vatni. "Kæla þarf þar til sviðinn hverfur en það getur tekið um eina og hálfa klukkustund eða lengur." Líklegt er að barnið verði fyrir vökvatapi og því mikilvægt að það drekki vel. Ef í ljós í ljós koma blöðrur og sár eftir kælingu skal fara með barnið á heilsugæslustöð eða slysadeild.

KERTI geta verið varasöm þegar börn eru nálægt.