Sýrðar rauðrófur skapa jólastemmningu "RAUÐRÓFUR eru bragðgóðar, hollar og óskaplega fallegar á litinn," segir Ólöf Árnadóttir sem súrsar rauðbeður fyrir jólin, setur í glerkrukkur sem hún skreytir til að gefa vinum og vandamönnum á Þorláksmessu.

Sýrðar rauðrófur skapa jólastemmningu "RAUÐRÓFUR eru bragðgóðar, hollar og óskaplega fallegar á litinn," segir Ólöf Árnadóttir sem súrsar rauðbeður fyrir jólin, setur í glerkrukkur sem hún skreytir til að gefa vinum og vandamönnum á Þorláksmessu.

Með tiltækinu segist Ólöf ekki síður vera að búa til stemmningu en sýrðar rauðrófur. "Móðir mín og frænkur hafa undanfarin ár komið í heimsókn í lok nóvember, við útbúum rauðrófuréttinn í sameiningu og höfum það notalegt," segir hún.

Það er auðvelt að súrsa rauðrófur og reyndar flest grænmeti að sögn Ólafar, en það tekur töluverðan tíma. "Ekki síst þess vegna ákvað ég að gera súrsunina að föstum viðburði í lok nóvember áður en allt jólastressið byrjar. Einnig er gott að láta rauðrófurnar liggja í legi í nokkar vikur áður en þær eru borðaðar."

Krukkurnar hennar Ólafar eru afar skrautlegar en hún notar kanilstöng, negulnagla og lárviðarlauf til að prýða þær auk þess sem kryddið gefur gott jólabragð.

"Rauðrófur skipa sérstakan sess á jólunum hjá okkur og eru ómissandi með svínasteikinni en einnig eru þær mjög góðar með kalkúnakjöti," segir Ólöf. Ekki skaðar að þær eru taldar mjög hollar, fullar af vítamínum og steinefnum en þar að auki eru þær hreinsandi fyrir lifrina, blóðaukandi og hægðalosandi.

Heimalagaðar

sýrðar rauðrófur

í kryddlegi

3 sultukrukkur með smelluloki

2 kg ferskar rauðrófur

tsk. sjávarsalt

1 l edik

300-400 gr sykur

3 kanelstangir

6 negulnaglar

3 lárviðarlauf

Rauðrófur eru þvegnar og soðnar i söltu vatni í um 40-60 mínútur eftir stærð. Skolið rauðrófurnar í köldu vatni, afhýðið þær og skerið í sneiðar eftir suðu.

Þvoið krukkurnar vel upp úr sjóðandi vatni, þurrkið þær vel og deilið niðursneiddum rauðrófum í krukkurnar. Sjóðið saman edik og sykur, hellið edikleginum yfir rauðrófurnar í krukkunum. Setjið þá 1 kanelstöng, 2 negulnagla og 1 lárviðarlauf i hverja krukku. Lokið krukkunum vel og geymið á köldum stað en þannig geymast þær í nokkra mánuði.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

ÞÆR SÚRSA rauðrófur fyrir jólin. F.v. Ólöf Árnadóttir, Brynja Pétursdóttir, Ólöf Guðný Geirsdóttir, og sonur hennar, Daníel Geir Karlsson, og Erna Hrönn Geirsdóttir.

Morgunblaðið/Golli

Það er auðvelt að súrsa rauðrófur og reyndar flest grænmeti