Efnahags- og viðskiptanefnd Keypti úttekt á Columbia VEGNA óánægju með svör iðnaðarráðuneytisins við beiðni um nánari upplýsingar um fyrirtækið Columbia Ventures Corporation, sem vill fjárfesta í álversbyggingu hérlendis, keypti efnahags- og...

Efnahags- og viðskiptanefnd Keypti úttekt á Columbia

VEGNA óánægju með svör iðnaðarráðuneytisins við beiðni um nánari upplýsingar um fyrirtækið Columbia Ventures Corporation, sem vill fjárfesta í álversbyggingu hérlendis, keypti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis úttekt á fyrirtækinu frá óháðum bandarískum aðila, sem sérhæfir sig í slíkri upplýsingaöflun.

Fyrirtækið heitir Veritas og kemur fram í úttekt þess að litlar upplýsingar eru aðgengilegar um rekstur fyrirtækisins, en hámarkslántökuheimild þess er talin fjórar milljónir bandaríkjadala, um 270 milljónir kr.

Fjárlaganefnd var að fjalla um hækkun á lántökuheimild Landsvirkjunar í 9 milljarða vegna virkjunarframkvæmda sem tengjast væntanlegu álveri Columbia Ventures. Að sögn Einars Odds Kristjánssonar, sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd, vildi nefndin fá nánari upplýsingar um hversu stöndugt Columbia sé.

"Iðnaðarráðuneytið var ekki tilbúið til að veita okkur þær upplýsingar sem við vildum," segir Einar, og þess vegna hafi nefndin brugðið á þetta ráð, að afla sér upplýsinganna með fyrrgreindum hætti. Úttektin kostaði 200 dollara, að sögn Einars, eða um 13.500 krónur.

Takmarkað lánstraust

Einar segir athyglisverðustu niðurstöðu úttektarinnar vera það takmarkaða lánstraust, sem áætlað sé að Columbia Ventures njóti. Og nefndinni sé umhugað um að tryggja á allan hátt að ekki verði farið út í orkuvinnsluframkvæmdir fyrr en sala á orkunni sé tryggð.

Þessi fyrirvari er orðaður í áliti meirihluta nefndarinnar sem lýsir þeim skilningi að framkvæmdir við virkjanir muni ekki hefjast nema fyrir liggi verklokaábyrgð vegna byggingar álversins. Er lánsheimildin til Landsvirkjunar veitt í ljósi þess.