Einstaklingur sakar verðbréfasala um ranga ráðgjöf við víxlakaup frá Stöð 3 Krefst bóta vegna tjóns EINSTAKLINGUR sem keypti víxla útgefna af Íslenska sjónvarpinu hf.

Einstaklingur sakar verðbréfasala um ranga ráðgjöf við víxlakaup frá Stöð 3 Krefst bóta vegna tjóns

EINSTAKLINGUR sem keypti víxla útgefna af Íslenska sjónvarpinu hf. (Stöð 3) í apríl og fékk þá ekki greidda á gjalddaga hefur ákveðið að höfða mál á hendur verðbréfafyrirtæki til viðurkenningar á skaðabótaskyldu á tjóni sínu vegna þess sem hann telur mistök í ráðgjöf við sölu víxlanna. Verðbréfafyrirtækið hafnar bótaskyldu.

Umræddur maður sem ekki mun áður hafa keypt verðbréf leitaði til Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka (VÍB) í apríl vegna skammtímaávöxtunar peninga sem hann hafði handbæra. Þar keypti hann tvo 5 milljóna króna víxla útgefna af Íslenska sjónvarpinu hf. og tók andvirði þeirra út af bankabók. Víxlarnir voru með um 13% ávöxtun, sem mun vera um fjögurra prósentustiga hærri ávöxtun en almennt var á víxlum á þessum tíma. Samhliða kaupunum fól hann verðbréfafyrirtækinu að innheimta þá. Víxlarnir voru ekki greiddir á gjalddaga en útgefandinn greiddi síðar 2 milljónir inn á skuldina og nú stendur manninum til boða að semja um niðurfellingu á 65% þeirra 8 milljóna kr. sem eftir eru og fá 35% borguð, með þátttöku í nauðasamningum Íslenska sjónvarpsins.

Bótaskyldu hafnað

Lögmaður sem eigandi víxlanna leitaði þá til taldi að verðbréfafyrirtækið kynni að vera skaðabótaskylt vegna þeirrar ráðgjafar sem það veitti manninum og hversu slaklega það hefði staðið að innheimtu kröfunnar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins telur maðurinn sig hafa spurt starfsmann VÍB sem bauð honum víxla Íslenska sjónvarpsins hvort þeim fylgdi áhætta og fengið þau svör að svo væri ekki vegna þess hve lánstíminn væri stuttur og að útgefandinn hefði örugga bakhjarla. Lögmaðurinn ritaði VÍB bréf og krafðist m.a. viðurkenningar á bótaskyldu fyrirtækisins. Í svarbréfi VÍB er erindi mannsins hafnað og samkvæmt heimildum blaðsins segist starfsfólk verðbréfamarkaðarins hafa veitt upplýsingar um þá áhættu sem fylgdi víxilkaupunum.

Sigurður B. Stefánsson, framkvæmdastjóri VÍB, staðfestir að einstaklingur hafi keypt víxla í umræddu fyrirtæki fyrir milligöngu VÍB og að bréfi hans hafi verið svarað. Hann vildi þó ekki ræða málið efnislega í gær.

Eigandi verðbréfanna hefur nú falið lögmanni sínum að undirbúa málshöfðun á hendur Verðbréfamarkaði Íslandsbanka til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna þess tjóns sem hann verður fyrir vegna víxilkaupanna.