Jöklar hætta flutningastarfsemi Eimskip er að kaupa Hofsjökul Tekur að sér flutninga fyrir SH til Bandaríkjanna SAMNINGAR eru á lokastigi um að Eimskip kaupi Hofsjökul af skipafélaginu Jöklum sem leggur jafnframt niður flutningastarfsemi.

Jöklar hætta flutningastarfsemi Eimskip er að kaupa Hofsjökul Tekur að sér flutninga fyrir SH til Bandaríkjanna

SAMNINGAR eru á lokastigi um að Eimskip kaupi Hofsjökul af skipafélaginu Jöklum sem leggur jafnframt niður flutningastarfsemi. Jöklar eru í eigu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna sem mun færa flutninga sína til Eimskips.

Friðrik Pálsson, forstjóri SH, sagði að stjórnir beggja fyrirtækinu hefðu heimilað að ljúka samningum um málið en líklega fengist niðurstaða ekki fyrr en eftir áramót. Því lægi söluverð ekki fyrir.

Hofsjökull er eina skip Jökla og hefur sinnt flutningum til og frá Bandaríkjunum, þar á meðal með allar frystar afurðir SH. Friðrik sagði að jafnhliða sölu skipsins yrði gerður samningur við Eimskip um flutninga á afurðum SH til Bandaríkjanna en þeir flutningar næmu um 20 þúsund tonnum árlega.

Friðrik sagði aðspurður að salan á Hofsjökli tengdist ekki beint nýjum fjárfestingum SH í Útgerðarfélagi Akureyrar. Það hefði lengi verið í athugun að selja skipið, þótt það hefði skilað ágætum arði, enda hefði samkeppnin á flutningamarkaðnum harðnað og SH væri að breyta ýmsum áherslum í rekstri.

"Við höfum verið að selja þá starfsemi sem við höfum stundað til hliðar við okkar aðalstarfsemi sem er að selja fisk. Þetta er einfaldlega liður í því að við ætlum að sinna því sem við teljum okkur gera best, að stunda sölustarfsemi, og láta öðrum eftir að flytja fiskinn fyrir okkur," sagði Friðrik.

Notað í N-Atlantshafsflutninga

Þórður Sverrisson framkvæmdastjóri hjá Eimskip sagði að Hofsjökull myndi nýtast fyrirtækinu í fiskflutningum á Norður-Atlantshafi. Eimskip hefði verið í slíkum flutningum milli Noregs og Norður-Ameríku frá því snemma á þessu ári og notað til þess leiguskip sem jafnan hefði verið mikið lestað bæði frá Noregi til Bandaríkjanna og Kanada og til baka.

Hofsjökull er 2.939 brúttólestir að stærð, smíðaður í Japan 1973 en keyptur hingað til lands árið 1977.

Hofsjökull