Síldarfundur í Ósló Viðræðum haldið áfram um helgina SAMNINGANEFNDIR strandríkjanna fjögurra, sem nytja norsk-íslenzka síldarstofninn, og Evrópusambandsins ákváðu í gærkvöldi, að loknum tveggja daga viðræðum í Ósló, að reyna áfram til þrautar að ná...

Síldarfundur í Ósló Viðræðum haldið áfram um helgina

SAMNINGANEFNDIR strandríkjanna fjögurra, sem nytja norsk-íslenzka síldarstofninn, og Evrópusambandsins ákváðu í gærkvöldi, að loknum tveggja daga viðræðum í Ósló, að reyna áfram til þrautar að ná samkomulagi um skiptingu síldveiðiheimilda. Að sögn Jóhanns Sigurjónssonar, aðalsamningamanns Íslands, gera menn jafnvel ráð fyrir að halda samningafundum áfram alla helgina.

Mikið bar í milli á síðasta samningafundi Íslands, Noregs, Rússlands, Færeyja og ESB, sem haldinn var í London. Jóhann segir að þráðurinn hafi nú verið tekinn upp að nýju og fyrst farið yfir þær forsendur, sem liggi að baki kvótaskiptingunni í samkomulagi strandríkjanna, sem náðist í maí síðastliðnum.

Í gær hafi menn síðan farið að ræða um mögulega skiptingu heildarkvótans, en fram hefur komið að hann verði líkast til um ein og hálf milljón tonna.

Jóhann segir ótímabært að tjá sig um stöðu viðræðnanna. "Við höldum áfram að reyna að ná samkomulagi," segir hann.