Genbreyttar baunir valda deilum í Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. HÓPUR danskra umhverfissinna hefur hreiðrað um sig á hafnarbakkanum í Árósum til að koma í veg fyrir að skip með sojabaunafarm verði affermt.

Genbreyttar baunir valda deilum í

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.

HÓPUR danskra umhverfissinna hefur hreiðrað um sig á hafnarbakkanum í Árósum til að koma í veg fyrir að skip með sojabaunafarm verði affermt. Í farminum eru genbreyttar sojabaunir og beinast mótmælin gegn því að baunirnar verði notaðar í mat, án þess að neytendur geti áttað sig á að hann innihaldi genbreytt hráefni. Merkingar á genbreyttum mat eru ekki aðeins deiluefni í Danmörku, heldur deila einnig Evrópusambandið og Bandaríkin um sama efni.

Tilraunaræktun sojabauna og maís með breyttum erfðaeiginleikum hefur staðið yfir undanfarin ár og því lengi stefnt í að neytendur stæðu einn góðan veðurdag frammi fyrir slíkum matvælum. Framleiðendur hafa hins vegar orðið löggjafanum fyrri til og hvorki Danmörk né ESB hefur gengið frá reglum um merkingu þeirra.

Færist ónæmi fyrir lyfjum í menn?

Bæði genbreyttar sojabaunir og maís eru viðurkenndar í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það eru bæði danskir og aðrir evrópskir neytendur tortryggnir, til dæmis vegna þess að genbreyttar jurtir hafi áhrif á náttúrulegar plöntur, að þær geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á heilsufar eða að þær þurfi meiri áburð og skordýraeitur. Ýmsir evrópskir vísindamenn eru auk þess áhyggjufullir yfir að maísinn sé ónæmur fyrir sýklalyfjum og að ónæmið geti færst yfir á dýr og á endanum í menn.

Í Danmörku er deilt um hvort merkja eigi að matvæli innihaldi eða innihaldi ekki genbreytt hráefni. ESB hefur einnig gert tillögur um merkingar og vilji er fyrir að bannað verði að flytja genbreytta maísinn til Evrópu. ESB og Bandaríkin standa í samningaviðræðum um þessi mál, en af hálfu Bandaríkjamanna er því haldið fram að slíkt innflutningsbann sé hreinræktuð verslunarhindrun, því enginn fótur sé fyrir umhverfis- eða heilsufarshættu.