Þungaflutningar yfir Alpana ESB gerir Svisslendingum nýtt tilboð Brussel. Reuter.

Þungaflutningar yfir Alpana ESB gerir Svisslendingum nýtt tilboð Brussel. Reuter.

SAMGÖNGURÁÐHERRAR aðildarríkja Evrópusambandsins hafa samþykkt tillögur Neil Kinnocks, sem fer með samgöngumál í framkvæmdastjórninni, um nýtt tilboð ESB í samningaviðræðum við Sviss um þungaflutninga. Gegn auknum aðgangi Sviss að Evrópumarkaðnum krefst ESB þess að vörubílar frá ríkjum sambandsins fái að aka um svissneska vegi.

Eins og nú háttar til er 28 tonna þungatakmörkun á svissnesku fjallvegunum, en vörubílar ESB-ríkja eru allt að 40 tonn. Austurríki og Frakkland hafa kvartað undan svissnesku reglunum, þar sem þær leiða til þess að þungaumferðin fer um alpavegi landanna tveggja í staðinn.

Þungaskattskerfi breytt

Evrópusambandið býðst nú til að aðstoða Svisslendinga við að fjármagna járnbrautargöng þvert í gegnum Alpana, sem létti þungaumferð af núverandi vegakerfi. Þetta á að tengja við endurskoðun á svokölluðu Eurovignette-kerfi Evrópusambandsins sjálfs, en samkvæmt því er lagður þungaskattur á vörubíla.

Breyta á kerfinu þannig að gjöld verði uppfærð til samræmis við verðlagsþróun síðustu ára og gjöld á bílum, sem menga mikið, hækkuð. Einnig verður gjald á bíla með mikinn öxulþunga hækkað.