Forseti ASÍ segir yfirlýsingar forsætisráðherra engu breyta Krefjumst sambærilegra lífeyrisréttinda GRÉTAR Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir að sérfræðingar ASÍ séu ekki sannfærðir um að fullyrðing forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að frumvarp um...

Forseti ASÍ segir yfirlýsingar forsætisráðherra engu breyta Krefjumst sambærilegra lífeyrisréttinda

GRÉTAR Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir að sérfræðingar ASÍ séu ekki sannfærðir um að fullyrðing forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að frumvarp um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna feli ekki í sér aukinn lífeyrisrétt opinberra starfsmanna sé rétt. Aðalatriði málsins sé hins vegar að ríkisstjórnin hafi í stjórnarsáttmála sett fram það stefnumið að tryggja öllum sambærileg lífeyrisréttindi. ASÍ krefjist þess að stjórnvöld standi við þetta markmið.

Grétar sagði að í mörg ár hefði Alþýðusambandið verið að búast við því að stjórnvöld tækju af skarið um mótun stefnu í lífeyrismálum. Lífeyrismálin hefðu verið til umfjöllunar lengi, m.a. lægju fyrir ítarlegar skýrslur um lífeyrismál frá árunum 1986 og 1987. Viðhorf ASÍ til málsins hefðu því alla tíð legið fyrir.

"Alþýðusambandið hefur séð fyrir sér að hér yrði mótuð stefna þar sem allir launþegar sætu við sama borð. Nú hefur ríkisstjórnin tekið af skarið með þessu samkomulagi við opinbera starfsmenn og gert við þá mjög góðan samning ef horft er á málið frá sjónarhóli starfsmanna. Það er því viðfangsefni stjórnvalda að tryggja öðrum launamönnum hliðstæðan rétt," sagði Grétar.

Grétar vísaði til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en þar segir að eitt af markmiðum stjórnarinnar sé ... "að treysta starfsgrundvöll lífeyrissjóðakerfisins þannig að allir landsmenn njóti sambærilegra lífeyrisréttinda".

Mótuð hefur verið ný stefna

"Núna hafa stjórnvöld mótað stefnu í lífeyrismálum til frambúðar. Við erum nýbúnir að endurskoða lífeyrissamning við okkar helstu viðsemjendur þar sem var góð sátt um málið allt, líka iðgjaldagreiðslurnar. Fyrst stjórnvöld móta stefnuna með þessum hætti verða þau að tryggja það sem út af stendur varðandi launþega á almenna markaðinum," sagði Grétar.

Fyrir skömmu áttu sérfræðingar ASÍ og fjármálaráðuneytisins fund með tryggingafræðingum þar sem farið var yfir forsendur samkomulagsins. Forsætisráðherra sagði við Morgunblaðið að það væri sinn skilningur að ekki hafi verið ágreiningur um þessar forsendur. Grétar sagði að sérfræðingar ASÍ hefðu ekki sama skilning á niðurstöðu fundarins. Þeir hefðu gert ýmsar athugasemdir við málflutning fulltrúa fjármálaráðuneytisins.