Kvótaviðskipti Óþarfi að afmarka tekjur "ÞAÐ er ástæðulaust að gera sérstakar ráðstafanir við framtal til skatts, svo lesa megi út úr því tekjur af viðskiptum með aflaheimildir.

Kvótaviðskipti Óþarfi að afmarka tekjur "ÞAÐ er ástæðulaust að gera sérstakar ráðstafanir við framtal til skatts, svo lesa megi út úr því tekjur af viðskiptum með aflaheimildir. Tekjurnar núna eru taldar fram með öðrum tekjum sjávarútvegsfyrirtækja og ekki ástæða til að blanda öðrum sjónarmiðum inn í skattkerfið," sagði Vilhjálmur Egilsson, alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á þingi kom fram, að tekjur sem stafa af sölu aflaheimilda eru ekki sérgreindar í ársreikningum fyrirtækja og því ekki hægt að sjá hve miklir skattar eru greiddir af viðskiptunum.

Enginn skattalegur tilgangur

Vilhjálmur Egilsson kvaðst ekki sjá tilganginn með því að afmarka tekjur vegna viðskipta með aflaheimildir sérstaklega. "Það hefur enga skattalega þýðingu. Útgerðir telja þetta fram, eins og aðrar tekjur, og greiða af því skatta. Ég sé engan skattalegan tilgang með því að þessar tekjur komi sérstaklega fram."

Vilhjálmur sagði að menn gætu auðvitað velt fyrir sér tilgangi með kröfum um framtal tekju- og eignaskatts. "Tilgangurinn er að leggja á skatta. Ef menn vilja halda utan um þetta af tölfræðilegum áhuga, er miklu eðlilegra að þeir óski eftir slíkum upplýsingum frá fyrirtækjunum, en ég sé ekki að þetta hafi neitt með skattalög að gera. Framtal til tekjuskatts á að vera í því eina formi, að rétt sé talið fram og hægt sé að leggja á skatta."