Mannbjörg þegar bátur fórst skammt út af Dalatanga Sökk á örfáum mínútum MANNBJÖRG varð þegar mótorbáturinn Rósa Björg NK-114 fórst skammt norðnorðaustur af Dalatanga um klukkan ellefu í gærmorgun.

Mannbjörg þegar bátur fórst skammt út af Dalatanga Sökk á örfáum mínútum

MANNBJÖRG varð þegar mótorbáturinn Rósa Björg NK-114 fórst skammt norðnorðaustur af Dalatanga um klukkan ellefu í gærmorgun. Einn maður var á bátnum og komst hann um borð í gúmmíbjörgunarbát.

Maðurinn lét tilkynningaskylduna vita um ferðir sínar um klukkan 7.30 í gærmorgun og hugðist sigla til Bakkafjarðar. Um klukkan 11 bárust skeyti um gervihnött, sem bentu til þess að neyðarsendir væri í gangi út af norðanverðum Austfjörðum og var tafarlaust send tilkynning til nærstaddra skipa um málið.

Dönsk herþota til hjálpar

Öll skip svöruðu kalli nema Rósa Björg, þannig að grunur vaknaði strax um að neyðarkallið væri frá bátnum.

Haft var samband við danska herþotu, sem var á leið til Keflavíkur frá Færeyjum, og beðið um að hún flygi yfir svæðið og svipaðist um eftir bátnum. Danska vélin varð fljótlega vör við sendingar frá neyðarsendinum og tilkynnti skömmu eftir hádegi að gúmmíbátur hefði fundist á reki með að minnsta kosti einn mann um borð, um sjö og hálfa sjómílu norðnorðaustur af Dalatanga. Þar í grennd var brak.

Flugmaðurinn tilkynnti til Landhelgisgæslunnar að vélin hefði eldsneyti til að sveima yfir svæðinu í um þrjá stundarfjórðunga áður en eldsneytisþörf ræki hann til lendingar, og sveimaði flugvélin þar um þangað til mótorbáturinn Eydís NS-32 kom til aðstoðar.

Eydís hafði verið á línuveiðum á þessum slóðum, en hætti þeim þegar tilkynning barst um neyðarkallið og hóf leit. Um klukkan 12.45 var skipbrotsmanninum bjargað um borð í bátinn, auk þess sem gúmmíbáturinn var tekinn borð í Eydísi, en danska vélin hélt til Keflavíkur.

Sjórinn streymdi inn

Skipbrotsmanninum reyndist ekki hafa orðið meint af volkinu og flutti Eydís hann til Borgarfjarðar eystri og kom þangað um klukkan 14 í gær.

Við skýrslutöku hjá lögreglunni á Egilsstöðum síðdegis bar maðurinn, sem er um hálffimmtugt og vanur sjómennsku, að skyndilega hefði sjór streymt inn í vélarrúmið og báturinn lagst á hliðina á örskammri stundu.

Hann hefði reynt að senda neyðarkall í gegnum talstöð en það mistekist, hugsanlega vegna þess fáts sem komið hefði á hann og hugsanlega vegna þess að aðstæður hefðu verið erfiðar. Honum hefði aðeins gefist tími til að kanna ástand bátsins lauslega áður en hann ákvað að setja út gúmmíbjörgunarbát og kveikja á neyðarsendi hans. Rósa Björg hefði síðan sokkið á örfáum mínútum.

Ekki er búið að ákveða hvenær sjópróf verða haldin.