Svik í viðskiptum með húsbréf Getur komið óorði á húsbréfakerfið FORMAÐUR Félags fasteignasala tekur undir þá skoðun forstjóra Húsnæðisstofnunar að hugsanleg aðild fasteignasölu að svikum í húsbréfaviðskiptum við stofnunina geti komið óorði á...

Svik í viðskiptum með húsbréf Getur komið óorði á húsbréfakerfið

FORMAÐUR Félags fasteignasala tekur undir þá skoðun forstjóra Húsnæðisstofnunar að hugsanleg aðild fasteignasölu að svikum í húsbréfaviðskiptum við stofnunina geti komið óorði á húsbréfakerfið.

"Við fordæmum þessi vinnubrögð sem við teljum að geti stórlega skaðað markaðinn og komið óorði á það annars ágæta markaðskerfi sem húsbréfakerfið er," sagði Jón Guðmundsson formaður Félags fasteignasala.

Um er að ræða húsbréfaviðskipti á 12 mánaða tímabili þar sem grunur leikur á að menn hafi sammælst um að framvísa kaupsamningum sem kveði á um mun hærri upphæð en raunverulegt verðmæti fasteignanna er og fá þannig mun hærri húsbréfalán út á kaupin en þeir eiga rétt á. Fram kom í Morgunblaðinu í gær, að um sé að ræða 16 húsbréfalán að meðaltali að upphæð um 4­5 milljónir króna eða alls um 60­80 milljónir.

Aðgerðir innan Húsnæðisstofnunar

Húsnæðisstofnun vísaði málinu til Rannsóknarlögreglu ríkisins á fimmtudag. Jón Guðmundsson sagði mikilvægt að rannsókn málsins yrði hraðað þannig að það upplýstist hið fyrsta hverjir ættu sökina svo aðrir lægju ekki undir grun á meðan. Jón benti á að í umræddum tilvikum væri fasteignasalinn ekki einn að verki heldur kæmu bæði seljendur og kaupendur að málinu. "Maður veit ekki hverjir eru þarna að ná sér í peninga með svikum fyrr en málið er upplýst," sagði Jón.

Sigurður E. Guðmundsson forstjóri Húsnæðisstofnunar segir, að í kjölfar þess að umrætt mál kom upp hafi reglur innan húsbréfadeildar stofnunarinnar verið hertar til að auðvelda starfsfólki að varast hugsanleg svik af þessu tagi og tengdist það m.a. samanburði á brunabótamati og uppgefnu kaupverði. Í kjölfarið hefði 2­3 húsbréfalánsumsóknum verið hafnað þar sem grunur lék á að um samskonar svik væri að ræða.

Sigurður segir að í athugun sé að koma á nákvæmu eftirlitskerfi í því skyni að sannreyna hvort verðmæti eignar sé í samræmi við uppgefið verð.

Vanþróaður markaður

Þau viðskipti sem málið snýst um voru með íbúðir á landsbyggðinni. Jón sagði markaðinn þar með þeim hætti að íbúðaverð væri frekar lágt en brunabótamat frekar hátt og það skapaði vissa hættu. "Markaðurinn úti á landi er frekar vanþróaður og um hann fjalla í fæstum tilfellum löggiltir fasteignasalar heldur vasast í þessu menn sem hafa í mörgum tilfellum litla kunnáttu og gera sér ekki grein fyrir þeim hættum sem þetta skapar fyrir fasteignamarkaðinn í heild," sagði Jón.