Önnur umræða fjárlaga á Alþingi í gær Tekist á um forsendur fjárlaga ÖNNUR umræða fjárlaga fyrir árið 1997, sem fram fór á Alþingi í gær, snerist að miklu leyti um forsendur fjárlagagerðarinnar, með hve miklum hagvexti megi reikna á næsta ári og hvort...

Önnur umræða fjárlaga á Alþingi í gær Tekist á um forsendur fjárlaga

ÖNNUR umræða fjárlaga fyrir árið 1997, sem fram fór á Alþingi í gær, snerist að miklu leyti um forsendur fjárlagagerðarinnar, með hve miklum hagvexti megi reikna á næsta ári og hvort raunhæft sé að gera ráð fyrir tekjuafgangi í rekstri ríkissjóðs.

Samkvæmt breytingartillögum þeim, sem meirihluti fjárlaganefndar lagði fram, er gert ráð fyrir tæplega 711 milljóna útgjaldaauka til viðbótar því sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir þegar það var lagt fram í haust. Tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins bíður síðan þriðju umræðu sem og stórir útgjaldaliðir, svo sem heilbrigðismál.

Jón Kristjánsson, formaður fjárlaganefndar, lagði í framsöguræðu sinni um tillögur meirihlutans áherzlu á að sú efnahagsstefna, sem lýsi sér í fjárlögunum taki tillit til þess markmiðs að stöðugleiki ríki í efnahagslífi landsins.

Framsögumenn stjórnarandstöðunnar, Gísli S. Einarsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og fleiri, kvörtuðu yfir því, að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, sem lýsti sér í fjárlagafrumvarpinu og skattastefnu hennar, miðaði við að leggja þyngri byrðar á heimilin á meðan byrðin á fyrirtækin væri lækkuð.

Breytt í rekstrargrunn

Jón Kristjánsson sagði það mikilvægt nýmæli, sem felist í nýlokinni endurskoðun á lagaramma fjárlagagerðarinnar, að ákveðið hefur verið að setja fjárlög upp á rekstrargrunni í stað greiðslugrunns, eins og tíðkazt hefur hingað til. Með því móti vinnist tvennt sagði Jón: "Í fyrsta lagi koma fjárlögin til með að kveða á um allar fjárskuldbindingar sem stofnað er til innan ársins, en ekki aðeins þær sem fela í sér greiðslur." Sagði Jón að áætla megi, að munurinn á rekstrargrunni og greiðslugrunni sé a.m.k. fjórir milljarðar um þessar mundir, þannig að jöfnuður á ríkissjóði eins og fjárlagafrumvarpið er upp sett þýðir í raun halli upp á fjóra milljarða þegar skuldbindingar eru teknar með í reikninginn.