FÉLAGSLÍF Þróttur og Reykjavíkurborg semja um að félagið flytji í Laugardalinn Þróttarar í hátíðarskapi KNATTSPYRNUFÉLAGIÐ Þróttur mun flytja alla starfsemi sína í Laugardalinn á næstu árum og taka við rekstri Gervigrasvallarins og Valbjarnarvallar.

FÉLAGSLÍF Þróttur og Reykjavíkurborg semja um að félagið flytji í Laugardalinn Þróttarar í hátíðarskapi

KNATTSPYRNUFÉLAGIÐ Þróttur mun flytja alla starfsemi sína í Laugardalinn á næstu árum og taka við rekstri Gervigrasvallarins og Valbjarnarvallar. Samningur milli Reykjavíkurborgar og Þróttar þessa efnis var undirritaður í fyrradag og segir Tryggvi Geirsson, formaður Þróttar, að mikill hugur sé í Þrótturum. "Við vorum búnir að bíða lengi eftir þessu," sagði Tryggvi.

amkvæmt samningunum mun Þróttur fá mun fleiri tíma en áður í Laugardalshöllinni og félagið mun leika heimaleiki sína á aðalleikvanginum í Laugardalnum þegar liðið er komið í 1. deild. Frá og með 1. janúar 1998 mun Þróttur annast umsjón með rekstri Valbjarnarvallar og frá 1. september sama ár bætist gervigrasið við, en skipta á um gras þar árið 1999.

Þróttur fær þrjú æfingasvæði samkvæmt samningunum. Svæðið suðvestan við húsdýragarðinn, sem liggur meðfram Suðurlandsbrautinni, svæðið norðan við TBR-húsið og það svæði sem er á milli skautasvellsins og gervigrassins. Æfingavellir á þessum stöðum eiga að vera tilbúnir vorið 1998. Nýtt vallarhús og félagsheimili verður byggt við hlið gervigrasvallarins og á það að vera tilbúið fyrri hluta árs 1998 en húsið mun verða um 1.350 fermetrar. Þá er ákveðið að tennisvellirnir við Sæviðarsundið verði þar næstu fimm árin en þá verða byggðir nýjir í Laugardalnum. Borgin fær hús og svæði félagsins við Sæviðarsund.

Tryggvi segir að með flutningunum muni Þróttur vera mun meira miðsvæðis fyrir sín hverfi en áður og því ætti að vera auðveldara að ná til fólksins en íbúar hverfisins eru á bilinu 15­18 þúsund. Hann sagði að næsta skref félagsins yrði að fara yfir hvernig hlutirnir ættu að vera í framtíðinni, því með þessum samningi væri ljóst að félagið myndi færa út kvíarnar og líklega yrði fjölgað deildum.

Hann sagði að framundan væru mjög spennadi tímar og jafnframt krefjandi. Borgin hefði sýnt forystu Þróttar traust með því að undirrita samninginn og einnig fylgdi þessu mikil ábyrgð sem Þróttur ætlaði að axla.

Morgunblaðið/Þorkell

Þróttur í

Laugardalinn

EF MARKA má svipinn á Tryggva Geirssyni, formanni Þróttar, gæti hann verið að spyrja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra hvort þetta hús fylgdi með í samningnum, en hann bendir á Laugardalshöllina.