KÖRFUKNATTLEIKUR Jólagjöfin varð KR-inga EFTIR æsispennandi framlengingu kom það í hlut KR­inga að hljóta jólagjöfina þegar þeir tókust á við Njarðvíkinga um sæti í undanúrslitum bikarkeppninar í körfuknattleik.

KÖRFUKNATTLEIKUR Jólagjöfin varð KR-inga

EFTIR æsispennandi framlengingu kom það í hlut KR­inga að hljóta jólagjöfina þegar þeir tókust á við Njarðvíkinga um sæti í undanúrslitum bikarkeppninar í körfuknattleik. En jafnara gat það vart verið því þegar fimm sekúndur voru eftir áttu leikmenn Njarðvíkinga möguleika á að taka pakkann með sér suðureftir og skilja leikmenn KR eftir með tvær hendur tómar. Baráttuglaðir vesturbæingar voru ekki tilbúnir að gefa það eftir sem þeir höfðu komið annarri hönd á, vörðust skynsamlega og sigruðu 89:88.

R-ingar voru mun frískari framan af fyrri hálfleik eftir að þeim tókst að koma böndum á Torrey John sem hafði gert þeim hverja skráveifuna á fætur annarri og haldið félögum sínum á floti. En það tók sinn toll og villurnar söfnuðust fyrir hjá þeim Birgi Mikaelssyni, Hinriki Gunnarssyni og Hermanni Haukssyni. Frumkvæðið var KR-inga en Njarðvíkingar voru þó aldrei langt undan og rétt fyrir hlé tókst þeim að minnka muninn í eitt stig 46:45 og þannig var er gengið var til leikhlés.

KR­ingar hófu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri og tókst að byggja upp nokkurra stiga forskot sem þeir héldu lengst af. Vörnin var góð og tókst að halda John niðri og neyða Njarðvíkinga til að skjóta talsvert utan af vellinum. En villuvandræðin fóru að segja til sín hjá Birgi og Hermanni og þá urðu KR­ingar að færa sig aftar. Um leið opnuðust möguleikar fyrir Suðurnesjamenn og þeir náðu að jafna leikinn 79:79 þegar 1,40 mínútur voru eftir og þrátt fyrir darraðadans beggja liða á þeim tíma sem eftir var tókst ekkert að bæta við. Besta færið fékk Jónatan Bow þegar hann fékk tvö vítaköst er ein sekúnda var eftir. Honum mistókst hins vegar úr báðum skotum og þar með varð framlenging ekki umflúin.

Í henni skiptust liðin á um að hafa forystu en KR­hópurinn var þunnskipaður þar sem Hermann og Birgir voru farnir af leikvelli og um miðja framlenginguna bættist Óskar Kristjánsson í hópinn. Auk þess voru nokkrir með fjórar villur, þar á meðal Hinrik og Ingvar Ormarson. Ingvar kom KR yfir 87:86 þegar 1,12 mín. var eftir og er hvoru liði hafði mislukkast í einu upphlaupi kom Páll Kristinsson gestunum einu stigi yfir er 22 sek. voru eftir. KR-ingar tóku leikhlé og byrjuðu síðan með boltann. Þeir léku upp á tækifæri og það kom fimm sekúndum fyrir leikslok og Bow skoraði örugglega af stuttu færi. Njarðvíkingar tóku strax hlé og réðu ráðum sínum en að því búnu tók Kristinn Einarsson innkast en Bow og David Edwards pressuðu leikmenn Njarðvíkur vel og tókst að koma í veg fyrir að þeir næðu sendingu Kristins og KR­ingar stóðu eftir með pálmann í höndunum.

Morgunblaðið/Golli

DAVID Edwards leikmaður KR hresstist mjög í síðari hálfleik eftir slakan fyrri hluta. Hér er hann í baráttu við hinn unga Pál Kristinsson en Torrey John fylgist grannt með.

Ívar

Benediktsson

skrifar