Íslandsmet hjá Eydísi í Rostock EYDÍS Konráðsdóttir sundkona úr Keflavík setti í gær Íslandsmet í 200 m baksundi á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug sem nú fer fram í Rostock í Þýskalandi. Eydís synti á 2.16,79 mín., en gamla metið var 2.18,58 mín.

Íslandsmet hjá Eydísi í Rostock

EYDÍS Konráðsdóttir sundkona úr Keflavík setti í gær Íslandsmet í 200 m baksundi á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug sem nú fer fram í Rostock í Þýskalandi. Eydís synti á 2.16,79 mín., en gamla metið var 2.18,58 mín. Eydís er farin að leggja áherslu á ný á baksundið eftir að hafa aðallega einebitt sér að flugsundi undanfarin misseri. Þess má einnig geta að þjálfari hennar um þessar mundir er Eðvarð Þór Eðvarðsson, allra fremsti baksundsmaður þjóðarinnar á sinni tíð og hefur Eydís greinilega ekki komið að tómum kofanum hjá honum.

Ríkarður Ríkarðsson sundmaður úr Ægi náði sínum besta tíma í 100 m skriðsundi á sama móti er hann kom í mark á 50,84 sek. og var aðeins 9/100 úr sekúndu frá Íslandsmeti Magnúsar Más Ólafssonar. Þá setti Örn Arnarson, SH, piltamet í 50 m baksundi er hann synti á 28,30 sek. en eldra metið var 28,49 sek.

Elín Sigurðardóttir, SH, synti 50 m flugsund á 29,63 sek. og félagi hennar Hjalti Guðmundsson synti 50 m bringusund á 29,72 sek. og hjó nærri sínum besta tíma. Ekkert af íslenska sundfólkinu komst í úrslit, en þeir sem ná sex bestu tímunum úr undanriðlum komast í úrslit.