Engin kennsla á þriðja stigi í fyrsta sinn í sögu Stýrimannaskólans Aðeins fjórir nemendur sóttu um farmanninn í haust ENGIN kennsla er nú á þriðja stigi Stýrimannaskólans í Reykjavík, en á því öðlast nemendur réttindi til skipstjórnar á farskipum.

Engin kennsla á þriðja stigi í fyrsta sinn í sögu Stýrimannaskólans Aðeins fjórir nemendur sóttu um farmanninn í haust

ENGIN kennsla er nú á þriðja stigi Stýrimannaskólans í Reykjavík, en á því öðlast nemendur réttindi til skipstjórnar á farskipum. Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík, segir aðeins fjóra nemendur hafa sótt um farmanninn sl. haust. Ráðuneytið hafi talið það of fámennt til að halda úti náminu. "Það er auðvitað mjög óviðunandi fyrir þá nemendur, sem settust í skólann á sínum tíma, að geta ekki fengið að ljúka náminu. Það verður bara að segjast eins og er að Íslendingar virðast ekki hafa orðið efni á því að mennta fólk í sjávarútvegi. Á sama tíma og innan við 25 milljónum kr. var í fyrra varið til reksturs Stýrimannaskólans, var 120 milljónum veitt til Bændaskólans að Hólum. Auk þess höfum við ekki fengið fjárveitingar til þess að ljúka byggingu skólahúsnæðisins sem er að mínu mati þjóðinni til skammar enda 51 ár liðið síðan húsið var fyrst vígt."

Þetta er í fyrsta skipti í sögu Sjómannaskólans, sem stofnaður var árið 1891, sem 3. stiginu er ekki haldið úti, að sögn Guðjóns. "Ég fór mjög ákveðið fram á aukafjárveitingu til skólans í haust vegna þess að ég er sannfærður um að þeir 27 nemendur, sem núna eru á 2. stigi, komi flestir til með að fara á 3. stigið á næsta ári, verði boðið upp á það þá."

Ráðuneytið vill að

lágmarki tíu nemendur

Fram til ársins 1988 voru nemendur á 3. stigi að jafnaði tólf til fimmtán talsins, en síðan hafa verið frá fimm nemendum og upp í ellefu mest og í fyrra útskrifuðust níu farmenn. Síðustu 16 árin hafa að meðaltali verið á 3. stigi ellefu nemendur.

Guðjón segir að 4. stigs námi, sem tekur til skipstjórnarréttinda á varðskipum, sé haldið úti þegar Landhelgisgæslan óski þess og síðast hafi það verið gert árið 1994. Hinsvegar hafi ráðuneytið tekið ákaflega illa í það ef nemendur eru undir tíu talsins í 3. og 4. stigi.

Áhyggjur FFSÍ

Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem haldin var á Akureyri fyrir skömmu, lýsir furðu sinni á afstöðu Alþingis til fjárveitinga til reksturs Stýrimannaskólans í Reykjavík og skorar á það að bæta nú þegar úr því ófremdarástandi sem þar ríkir. Ráðstefnan vekur sérstaka athygli á þeirri alvarlegu staðreynd að á þessu skólaári skuli 3. stig við Stýrimannaskólann í Reykjavík ekki vera starfrækt og þeim nemendum, sem sóttu um skólavist til áframhaldandi náms sem þeir hófu tveimur árum fyrr, var vísað frá:

Leiðir til skorts á skipstjórnarmönnum

"Sú minnkandi aðsókn að skipstjórnarnámi sem átt hefir sér stað á undanförnum árum mun óhjákvæmilega leiða til þess að skortur verði á skipstjórnarmönnum með fyllstu atvinnuréttindi til starfa á kaupskipum og varðskipum eftir fá ár. Í þessu sambandi minnir ráðstefnan á að FFSÍ hefur, um árabil, hvatt til og reyndar tekið þátt í tillögugerð sem lýtur að endurskipulagningu skipstjórnarnámsins sem ráðstefnan telur, til lengri tíma litið, vera lykilinn að því að unga menn og konur fýsi að nema skipstjórnarfræði og leggja fyrir sig skipstjórnarstörf, en án árangurs hingað til.

Tími framkvæmdanna

löngu runninn upp

Með tilliti til þess sem að framan segir lýsir ráðstefnan yfir ánægju með framkomnar tillögur "um skipan skipstjórnarnáms" sem menntamálaráðuneytið sendi frá sér í júní sl. þó einhverju þurfi að víkja þar til, sbr. t.d. athugasemdir FFSÍ dags. 2. ágúst 1996. Ráðstefnan leggur áherslu á að menntamálaráðuneytið geri nú gangskör að því að ljúka við tillögurnar sem allra fyrst svo hægt verði að hefjast handa við undirbúning að gildistöku þeirra. Í þessum efnum telur ráðstefnan að tími framkvæmdanna sé löngu kominn.

Ráðstefnan tekur undir allar tillögur skólanefndar Stýrimannaskólans í Reykjavík sem koma fram í umsögn hennar um tillögur menntamálaráðuneytisins, ekki síst að skólinn verði einn þeirra framhaldsskóla sem bjóði upp á nám á sjávarútvegsbraut, en ekki einungis sérgreinahluta hennar eins og tillögur ráðuneytisins gera ráð fyrir. Leggur ráðstefnan líkt og skólanefndin áherslu á að skólinn fái fjárveitingu í þessu skyni á fjárlögum fyrir árið 1997 þannig að hann geti boðið upp á kennslu á sjávarútvegsbraut haustið 1997 og kennsla fagnáms samkv. nýju kerfi geti mögulega hafist haustið 1998."