Kaffidrykkir í jólaösinni kaffiilmurinn segir næstum alltaf til um kaffibragið og Þórdísi Gunnarsdóttur lék forvitni á að vita hvaða kaffi það væri, sem svo skyndilega hafði hrifið hana burt úr önnum hvunndagsins.

Kaffidrykkir í jólaösinni kaffiilmurinn segir næstum alltaf til um kaffibragið og Þórdísi Gunnarsdóttur lék forvitni á að vita hvaða kaffi það væri, sem svo skyndilega hafði hrifið hana burt úr önnum hvunndagsins. ÞEGAR kaldur morgunhiminninn yfir Íslandi skartar bleiku og bláu í tærleika sínum er það næstum örugg vísbending um að jólin séu á leiðinni.

Það var einmitt einn slíkan morgunn sem leiðin lá eftir Pósthússtrætinu. Í andrúmsloftinu mátti greina sterkan ilm nýmalaðra kaffibauna. Ilminn lagði frá Kaffibrennslunni en þessi fræga unaðsangan hefur í tímans rás gert kaffið að þjóðardrykk Íslendinga. Kaffiilmurinn segir nefnilega næstum alltaf til um kaffibragðið.

Breytt kaffimenning

Það var hlýleg stemmning á Kaffibrennslunni. Fallegur barþjónninn dró sem allra snöggvast athyglina frá kaffinu en fljótlega kom í ljós að hann lumaði einnig á ýmsum fróðleik um kaffiveröldina.

Hann útbjó síðan ilmandi ljúfa kaffibolla og kynnti sig sem Ingva Steinar Ólafsson. Vegna seiðandi aðdráttarafls barþjónsins var ekki annað hægt en að fá hann til að tylla sér og hann féllst á að deila kaffifróðleik sínum og gefa lesendum Morgunblaðsins uppskriftir að skemmtilegum kaffidrykkjum sem prófa mætti um jólin.

"Kaffiferillinn er svipaður vínrækt," sagði Ingvi Steinar og bætti við að land, hérað, brekka og framleiðandi væru þar ekki síður mikilvægt atriði en í vínframleiðslunni.

En hvað er gott kaffi?

"Við getum sagt að soðið kaffi sé "out" í dag. Sé kaffið gott drekkur maður minna en ella. Gæðin skipta máli en ekki magnið," upplýsti barþjónninn.

Ingvi Steinar benti á að kaffimenningin hefði vitanlega breyst á síðustu árum og fólki sem fyndist hefðbundið kaffi vont, of sterkt eða beiskt á bragðið, fyndist næstum alltaf aðrir kaffidrykkir góðir, svo sem cappuccino, café mocha eða café latte. Þar væri hægt að deyfa kaffibragðið með flóaðri mjólk, sykri, súkkulaði eða bragðsírópi útí til tilbreytingar og yndisauka.

Jólin og rómantíkin

Það er þekkt staðreynd að landsmenn verða rómantískari þegar nær dregur jólum. Barþjónninn býr yfir ótrúlegum sjarma og rómantíkin læsist í kvenkyns viðskiptavinina sem spyrja lymskulega hvernig Ingvi Steinar sjái fyrir sér góðan endi á rómantísku jólakvöldi, í kaffilegum skilningi þó.

"Til að fullkomna kvöldið færi ég í kaffiverslun fyrir jólin til að fá mér gott kaffi, ekki Nescafé instant, þótt það sé auðvitað frábært í neyð. Mikilvægt er að kjarninn sé góður í kaffinu," segir hann alvarlegur. "Síðan myndi ég velja mér góðan líkjör og hafa hvort tveggja kaffið og líkjörinn sér. Mér finnst kaffið sem slíkt svo gott að ekki þurfi að bæta það frekar. Eins gæti ég vel hugsað mér að setjast niður með góðan kaffidrykk, t.d. cappuccino eða café latte, þar sem flóaða mjólkin er í aðalhlutverki. Þannig kemst ég nær súkkulaði-stemmningunni sem er svo jólaleg."

En nú sló aðeins á rómantísku jólastemmninguna því Ingvi Steinar minntist á líkjör með kaffinu á jólunum. Eru ekki helgispjöll að nota áfengi á jólunum?

"Ég er hlynntur notkun áfengis á jólum svo framarlega sem hófdrykkja á sér stað," svarar Ingvi Steinar og brosir sannfærandi.

En þetta er viðkvæmt mál hjá Íslendingum þótt það hafi verið að breytast með aukinni og bættri vínmenningu á seinni árum. Jólin eru hátíð barnanna og allt það, og börnin drekka ekki áfengi. Jólin hafa alltaf verið heilög bindindisstund.

Ingvi Steinar skilur þessar mótbárur vel og segir: "Áfengisneysla hefur yfirleitt tengst tilefnum, eins og kokteilum, afmælum o.s.frv. og eins er fólk edrú af tilefnum, eins og t.d. á jólunum. Mín lífsspeki er hins vegar sú að líkjör og koníak geta undirstrikað stemmninguna og slegið á jólastressið, auk þess sem það örvar ímyndunaraflið í jólainnkaupunum í amstri aðventunnar. Svo má ekki gleyma að hóflega drukkið áfengi gefur yl í kroppinn í jólaösinni."

Það ríkir sátt við þessi ummæli barþjónsins en ekki verður hjá því komist að hugsa til hinnar víðfrægu kaffi-ástarsögu sem landinn fylgdist spenntur með í auglýsingatíma sjónvarpsins. Minntist hann ekki eitthvað á Nescafé áðan?

Jú, víst var barþjónninn jólakærastalegur og auðvelt að gleyma stund og stað í notalegri návist hans og kaffidrykkjanna góðu. En himinninn var farinn að nálgast ísblátt litrófið og tími til kominn að halda áfram. Þegar barþjónninn kvaddi, laumaði hann miða í farangur kaffigestanna og brosti dularfullt í kveðjuskyni.

Hvaða leyndardóm geymdi miðinn? Var barþjónninn að senda einhverri ástarorð eða kannski símanúmerið sitt? Úti í nóvemberkuldanum var samanbrotinn miðinn opnaður. Það var ekki laust við að vonbrigða gætti þegar innihaldið blasti við. Ingvi Steinar hafði ekki skynjað sömu rómantísku stemmninguna og áður var nefnd. Á miðanum voru uppskriftir af kaffidrykkjum sem fullkomna jólastundirnar, rómantískar eða ekki.

ÞLG

Morgunblaðið/Áslaug

GOLDSCHLAGER, svissneskur kanillíkjör með ekta gullflögum útí. Gott er að setja 3 kaffibaunir útí glasið, kveikja stutta stund í líkjörnum til að fá kaffibragðið til að blandast saman við líkjörinn. Passa að slökkva logann fljótt því alkóhólmagnið gufar fljótt upp og glösin geta sprungið við hitann.

BARÞJÓNNINN Ingvi Steinar Ólafsson.