Guðrún Bjarnadóttir Fyrir ríflega 20 árum kynntist ég þeim Guðrúnu Bjarnadóttur og Sigmari Ágústssyni á Ólafsfirði. Þau voru "amma og afi" alnöfnu hennar, stúlkunnar sem heillaði fótboltaþjálfara Leifturs þeirra ára og varð síðar eiginkona og móðir barnanna okkar. Frá fyrstu tíð var mér tekið opnum örmum í Skipholti og fann ég þar strax fyrir ómældum kærleiksboðskap kristinnar trúar, sem var svo augsær þáttur í hlýjunni þar. Þessi trúrækni og nálægð við Drottin Guð voru Guðrúnu einhvern veginn svo eðlislæg.

Síðar komst ég að ýmsu um þessa harðgeru, en þó mildu konu. Uppgötvaði að langt líf hennar hafði einkennst af óbilandi kjarki og þrutseigju ásamt ómældri ást á sínum nánustu og umhyggju fyrir þeirra högum. Þannig sigldi hún í gegnum boðaföll tilverunnar í 98 ár uns komið var í höfn nú í byrjun jólamánaðar.

Ég vil þakka fyrir að hafa fengið að kynnast lítillega þessari hlýju konu með óvenjumikinn lífskraft og gnægð manngæsku. Ég vil einnig þakka henni fyrir margt það jákvæðasta í fari stúlkunnar sem ég varð skotinn í fyrir 20 árum. Kærleikur ömmu Guðrúnar er eitthvað sem lifir í öllum þeim laukum sem sprottið hafa upp á meiði hennar.

Í önnum hversdagsins býr í sumu fólki slík ást og umhyggja að orð fá vart lýst. Þannig var þessu farið með Guðrúnu Bjarnadóttur, konuna sem veitti öðrum ómældan kærleik og varð hans einnig aðnjótandi í svo ríkum mæli.

Ingólfur Hannesson.