Guðrún Bjarnadóttir Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Elsku besta amma.

Okkur grunaði ekki að annar sunnudagur í aðventu yrði okkur svona erfiður. Við fréttirnar um dauða þinn þann morgun setti okkur hljóð og minningarnar um þig streymdu fram.

Við litlar stelpur í Skipholti hjá ykkur afa, daga jafnt sem nætur og eina af okkur óluð þið að mestu upp. Þú gafst okkur gott veganesti út í lífið og varst sú sem við gátum alltaf leitað til.

Allar berjaferðirnar út í Múla eða inn í fjörð. Við að hjálpa þér á haustin að taka upp kartöflurnar bak við litla húsið þitt, og ekki mátti rababarinn verða ónýtur, í krukkurnar skyldi hann komast.

Jólin voru þinn tími. Ekki mátti gefa þér jólagjafir fyrr en á aðfangadagskvöld, því annars varstu búin að opna þær. Þú skreyttir litla húsið þitt með ljósum og litla jólatréð átti sinn stað. Öll aðfangadagskvöldin var borðað hjá þér og oft vorum við orðnar óþolinmóðar hvað allt þetta stúss tók langan tíma svo hægt væri að komast í að opna jólapakkana. Seinna voru það börnin okkar sem fengu að njóta jólanna hjá þér og þá var gott að koma í Skipholt til ömmu því hún hafði alltaf tíma til að hlusta og segja þeim frá gamla tímanum. Ósjaldan var stungið súkkulaðimola í litla munna og marga sokkana og vettlingana varstu búin að prjóna á litlar hendur og fætur.

Minningarnar eru margar og söknuðurinn er mikill. En hluti af þér lifir alltaf með okkur hvar sem við verðum og þakklæti fyrir að hafa átt þig að svona lengi. Fjölskyldum okkar veittir þú alltaf mikla umhyggju og það verður tómlegt að koma til Ólafsfjarðar vitaandi að þú tekur ekki á móti okkur framar með opinn faðminn. Við kveðjum þig með bænunum sem þú kenndir okkur og við við munum kenna börnunum okkar. Við vitum að það hefur verið tekið vel á móti þér hinum megin við landamærin.

Vertu nú yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesú mæti.

(Höf. ók.)

Hvíl í friði.

Ingunn, Sigrún, Sóley

og fjölskyldur.