Helga Jóhannsdóttir Elsku amma mín, ég á bágt með að trúa því að ég sé að kveðja þig. Þú sem varst svo mikill "klettur" eins og mamma mundi segja. Alltaf svo hraust og full af lífsorku. Þegar ég hugsa til baka þá er mér efst í huga þegar ég heimsótti þig á Hraun núna í september. Það var orðið langt síðan ég hafði komið í sveitina. En það var allt á sínum stað. Þú komst út á hlað til að taka á móti okkur eins og öll hin skiptin. "Eruð þið svöng?" var eitt af því fyrsta sem þú sagðir eftir að hafa knúsað okkur. Ég veit samt ekki alveg af hverju þú spurðir því að þú hlustaðir aldrei á svarið. Hangikjöt, svið og vel sykruð kartöflumús var komin á borðið áður en við gátum áttað okkur. Já, ég varð alltaf að passa mig að koma með tóman maga í heimsókn til þín því þú fylgdist með því hvað ég borðaði mikið af diskinum mínum. Sama hversu mikið ég borðaði, þá fannst þér ég aldrei borða nóg. Eftir matinn var svo spilað. Spilamennskan var löngu orðin fastur liður í heimsóknum til ykkar. Núna seinast spiluðum við tvær saman á móti Frænku og Gullömmu. Við vorum góðar saman. Ég held við höfum unnið hverja einustu umferð. Þá var þér skemmt. Þú hlóst og slóst í lærið á þér eins og þú gerðir alltaf.

Það er erfitt að hugsa til þess að heimsækja sveitina án þess að þú komir út á hlað að taka á móti okkur, fá hangikjötið þitt eða heyra hláturinn þinn. Ég á eftir að sakna þín. En minningarnar um þig eru ófáar. Ég ætla að halda fast í þær. Ég kveð þig nú, elsku amma mín.

Guð geymi þig.

Góði guð, viltu styrkja afa minn, gullömmu, frænku og pabba minn í sorginni.

Þín

María Guðjónsdóttir (Mæja).