Helga Jóhannsdóttir Hún mamma er dáin. Þessi orð líða mér seint úr minni. Þegar síminn hringdi aðfaranótt sunnudagsins 8. desember datt mér ekki í hug að verið væri að flytja slíka harmafregn. Elsku Helga mín, þú fórst allt of snemma, við áttum eftir að gera svo ótalmargt saman, ekki bara á þessu ári heldur í svo mörg ár. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Þegar við vorum hjá þér föstudaginn 6. des. ræddum við ýmislegt, þar á meðal að þú ætlaðir að koma snemma út í Hraun næsta sumar því nú þyrfti að setja nýtt þak á gamla bæinn. Þú þráðir alltaf að vera að ferðast eitthvað og þú varst oft farin af stað í huganum. Eftir að þú fluttir á Krókinn varstu samt alltaf með hugann við búskapinn og þurftir að fylgjast náið með, spurðir í þaula og hættir ekki fyrr en þú varst búin að fá þau svör sem þú vildir. Þú gerðir okkur Magga kleift að fara í frí, þá komuð þið Pétur og Stefanía bara í Hraun og tókuð að ykkur búið og jafnvel heimilið líka ef farið var lengra. Fyrir þetta allt var ég ekki búin að þakka nóg, ég geri það núna. Vorboðinn okkar allra á Hrauni var hvenær afi, amma og gullamma kæmu í sveitina og það var svo indælt að koma í gamla bæinn og finna kaffiilminn, þá var eins og þið hefðuð aldrei farið þaðan, gamli bærinn fékk líf þegar þið voruð komin.

Þú þurftir alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og þér féll varla verk úr hendi, alltaf að hugsa um að aðrir hefðu það sem best, en gleymdir að hugsa um sjálfa þig. Elsku Helga, við gengum í gegnum bæði súrt og sætt þau ár sem við bjuggum saman á Hrauni en komum alltaf heilar út úr því. Milli okkar var visst samband sem ég mun alltaf kunna að meta. Börnin okkar vilja þakka þér fyrir hvað þú varst þeim alltaf góð og hlý, þau kveðja þig með söknuði, en minningin lifir.

Elsku Pétur, Stefanía, Ragna og börnin, missir okkar allra er mikill en við munum allar góðu stundirnar og það hjálpar okkur yfir erfiðustu sorgina.

Guð blessi minningu Helgu Jóhannsdóttur.

Þín tengdadóttir,

Elínborg.