Helga Jóhannsdóttir Með nokkrum orðum vil ég minnast Helgu Jóhannsdóttur. Helga og Pétur Guðjónsson, maður hennar, bjuggu myndarbúi á Hrauni í Sléttuhlíð. Þeim auðnaðist að koma á legg átta börnum. Heimilið var því ætíð mannmargt og stóð öllum opið.

Þær voru ófáar ferðirnar sem við fórum til að heimsækja þau, tengdafólk systur minnar. Þá var atast með heimilisfólkinu í heyskap, kýrnar sóttar og mjólkaðar og öðrum bústörfum sinnt, jafnvel gafst tækifæri til að aka dráttarvélinni á túninu og sitja á heyhlassinu heim að hlöðu. Helga lét ekki sitt eftir liggja við bústörfin frekar en heimilishaldið og man ég eftir henni á dráttarvél að snúa heyi úti á túni. Þegar Helga og Pétur ákváðu að bregða búi fluttu þau á Sauðárkrók en dvöldu þó á Hrauni yfir sumartímann. Hvort sem leiðin lá norður eða suður, kvölds eða morguns, var alltaf gott að koma við hjá Helgu og þiggja kleinur, mjólk eða aðrar góðgjörðir. Þá var mikið spjallað og spurt frétta.

Fundum okkar Helgu bar síðast saman nú í september. Hún gladdist við að sjá Auði Maríu, dóttur mína, þá hálfs árs, og gaf henni fyrstu kleinuna sem hún smakkaði. Það verður skrýtið að fara um í Skagafirði eftir fráfall Helgu en minningin um góða konu sem ætíð kom út á hlað og heilsaði gestum sem bar að garði mun lifa með okkur. Ég sendi innilegar samúðarkveðjur okkar mömmu til ykkar allra, Péturs og fjölskyldunnar.

Elín Gísladóttir.