Helga Jóhannsdóttir Mér brá þegar mér var sagt að hún Helga væri dáin. Hún var ekki í röðinni. Það er orðið langt síðan að ég kom fyrst í sveitina að Hrauni til Helgu og Péturs. Ég var fimm ára, bráðum sex, og gleymi aldrei þeim tíu sumrum sem ég var í sveit hjá þeim. Helga kenndi mér að öll dýr eru góð og gáfuð og hjá þeim hjónum fékk ég þá hugsjón að verða bóndi. Ég komst þó aldrei lengra en að verða búfræðingur.

Það er athyglisvert, þegar ég hugsa til baka, hversu það vel lá fyrir Helgu að leiðbeina fólki. Hún fór létt með að snúa skoðunum mínum sem ég, sem barn, hélt að væru góðar og gildar og sjálfstraustið sem hún gaf mér, jókst eftir hvert sumar. Hugsaðu þér að vera tíu sumur í sveit á sama bænum og ég varð alltaf fallegri og betri (að eigin áliti) eftir því sem sumrin liðu, því á hverju sumri og stundum oft á dag sagði hún Helga mér hvað ég væri fallegur og góður. Eitt er víst að af ástúð og hlýju átti Helga nóg og hún kunni svo sannarlega að byggja upp sjálfstraustið í mönnum. Eitt gott dæmi er að eftir að þau fluttu á Krókinn þá komum við Adda norður og gripum í spil um kvöldið. Í miðjum spilum skamma ég Öddu fyrir að spila vitlaust ­ alveg eins og Helga skammaði alltaf ömmu og Pétur ef þau spiluðu vitlaust. En, nei, Helgu fannst ég ekki hafa verið sanngjarn þar. Það sem eftir var af spilakvöldinu skipti ekki máli hvernig Adda spilaði, Helga hrósaði henni í hástert og í dag trúir Adda því að hún sé frábær spilamaður. Það eru margar minningar sem ég á um Helgu, hún hafði svo sannarlega sín áhrif á mig og er ég henni mjög þakklátur. Það voru forréttindi að fá að vera í sveit og fríðindi að hafa Helgu sem "mömmu".

Eitt sinn verða allir menn að deyja,

eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það en samt ég verð að segja

að sumarið líður alltof fljótt.

Ég votta fjölskyldunni allri, þó sérstaklega ömmu og Pétri, samúð mína.

Ómar Stefánsson.