Kristinn Beck Mikill höfðingi hefur verið af heimi kallaður. Höfðingi mikils hagleiks, meistari mikillar frásagnarlistar, trúr þegn og trygglyndur, vinsæll og vel virtur af sínu samferðafólki, margfróður vel og vandaður í hvívetna, ljúfri lund og leikandi glettni við brugðið.

Gott er hverjum þeim að kveðja sem svo hefur lifað langa ævi og á við leiðarlok svo ljómandi sögu. Allt fram undir það síðasta lét hann í litlu hlut sinn fyrir Elli kerlingu, átti sína heiðu hugsun og bærilega líkamskrafta þó aldur væri orðinn hár, kominn allnokkuð á tíunda tug.

Kristinn Beck er þeim minnisstæður mjög er með honum áttu samfylgd um ævina, gegnheill og grandvar með græskulausa kímni að farsælum förunaut. Hann var hóglátur maður og hæverskur vel en skaplyndi skýrleiks og festu átti hann og þannig ávann hann sér allra traust og trúnað. Vináttu hans var gott öllum að eiga, hlýr í lund í hógværð sinni, á hann var óhætt að treysta, orð hans stóðu.

Kristni var margt til lista lagt, hann lærði á sínum tíma járnsmíði, en sinnti henni ekki mikið, þó vandaðir og vel unnir væru munir þeir er hann gerði. Hann var mikill hagleiksmaður, fékkst við ýmsa iðn með ágætum, smíðaði, málaði, lagfærði og mjög rómað handbragð hans í hverju einu.

Hann átti eðli góðbónda í ríkum mæli, meðan hann átti fé þótti það einkar vænt og vel fram gengið, þar eins og í öðru lagði hann að alla sína alúð. Hins vegar mun hans án efa um Austurland og enn víðar minnzt sem hins bráðsnjalla bifreiðarstjóra sem aldrei hlekktist á en Kristinn var um langa hríð með leigubifreið og ók vítt um vegi og vegleysur raunar þar sem þá var ástand vega allt annað en í dag. Hann þótti með afbrigðum farsæll sem slíkur og fjölmargir sem tóku sér helzt ekki far með öðrum en honum. Gestir á Austurlandi sem hann ók um firði sem Hérað vildu engan annan en Kristin ef kostur var, væru þeir áður búnir að aka með honum og segir það sína sögu af vinsældum hans. Var hvort tveggja að hann var afar fróður um byggðir sem búendur og svo var hann auðvitað svo einstaklega skemmtilegur í viðræðum, kryddaði léttri kímni kjarnyrtar frásagnir svo hrein unun var á að hlýða. Öryggi hans og ökuleikni öll víðkunn og verðskulduð.

Fáa sögumenn hefi ég heyrt fara svo á kostum í frásögnum öllum og efst þó ætíð einlæg velvild í garð þeirra sem getið var. Á löngum leiðum og oft erfiðum yfirferðar var ekki amalegt að eiga slíkan samræðusnilling við stjórnvöl um leið og menn fundu að hjá honum voru þeir í góðum höndum hins gætna en jafnframt áræðna bifreiðarstjóra.

Kristinn var af einstaklega miklu kjarnafólki kominn í báðar ættir svo ekki féll eplið langt frá eikinni, enda ef velja ætti honum verðugt heiti þá væri það valmenni.

Faðir minn og Kristinn voru systrasynir og góð frændsemi með þeim. Minnisstætt er mér frá bernsku þegar faðir minn lá fárveikur heima og um tíma vart hugað líf að þá var Kristinn kominn þar til hjálpar og hughreystingar ásamt því að sinna aðdráttum að heimilinu. Foreldrar mínir mátu þetta afar mikils og minntust oftlega þessarar elskulegu hjálpsemi Kristins á erfiðum stundum. Greiðvikni og hjálpsemi voru honum eðlislægir kostir sem samferðafólk hans mat eðlilega að verðleikum.

Kristinn var enda vinmargur, vinfastur og frændrækinn, vina- og frændgarður hans fjölmennur og hann hrókur alls fagnaðar heima sem heiman, glaðsinna góðvild hans gjöful mörgum.

Í öllu sínu einkalífi var hann góður gæfumaður, eignaðist afbragðsgóða og hæfileikaríka konu, heimili þeirra hlýlegt og bar smekkvísi beggja hið bezta vitni. Þangað var löngum gestafjöld gott að koma enda hjartarúm húsráðenda mikið. Þau voru bæði félagslynd hið bezta og féll vel að blanda geði við aðra. Dóttirin Kristín var augasteinn þeirra og samband þeirra feðgina fágætlega gott.

Þegar ég hitti Kristin síðsumars fann ég að honum var verulega brugðið, þó æðrulaus gengi hann mót örlögum sínum. Hann var orðinn saddur lífdaga, þegar fjör og kraftur voru á svo hröðu undanhaldi, en reisn hugans söm við sig. Þeim sem þannig er farinn að fjöri lífsins heilsar dauðinn sem líknsamur og kærkominn gestur. Hann gat litið yfir farsælan æviveg, honum hafði lífið fært marga góða gjöf og hann var hlutverki sínu hið bezta trúr. En það er vissulega sjónarsviptir að slíkum höfðingsmanni hollra viðhorfa, heillyndis og heiðríkrar lífssýnar.

Við Hanna þökkum fylgd góða um fjölmörg ár, sendum okkar góðu vinum, Kristínu og Sigurði og þeirra fólki öllu, okkar einlægustu samúðarkveðjur.

Kristinn Beck skilur eftir sig margar minningaperlur. Þar fór drengur góður er með dug og dáð dvaldi með okkur ærið langan ævidag. Hann átti sína einlægu og bjargföstu trúarvissu og honum fylgja hlýjar kveðjur og þakkir yfir til þeirra ódáinslanda eilífðarinnar sem öll hans vissa stóð til.

Blessuð sé bjarmandi góð minning.

Helgi Seljan.