Sigurður Sigurðsson Á afmælisdaginn minn, 4. desember síðastliðinn, hringdi systir mín í mig og óskaði mér til hamingju með daginn, en sagði svo: "Ég samhryggist þér"; ég var nývöknuð og skildi ekki hvað hún meinti, svo ég sagði henni að "ég væri nú ekki svo gömul", en þá vissi ég ekki að fyrr um morguninn lést afi minn, hann Súddi í Sunnuholti, eins og hann var alltaf kallaður. Alltaf var gaman að koma til afa og ömmu í sveitina og fá að taka þátt í því sem þar var að gerast. Afi hafði gaman af tónlist, og var yfirleitt raulandi eitthvað þegar hann var við störf sín í fjósinu. Sem krakki hélt ég að það ætti alltaf að syngja fyrir kýrnar af því að afi gerði það. Það er svo margs að minnast nú á þessari stundu. Ég man þó sérstaklega eftir fermingardeginum mínum, en þá varð afi 60 ára, sama dag. Hann kom auðvitað til mín í veisluna, og síðan um kvöldið fór ég í veislu til hans.

Þetta eru ekki mörg orð, en minningarnar eru margar. Elsku afi, hafðu þökk fyrir allt það góða sem þú gerðir fyrir mig, það var ekki lítið.

Ríki þitt var óðal grænna grunda.

Gróðursælla hlíða og birkilunda.

Heill sé þér með þreki þinna munda,

til þjóðarheilla varst þú bú að stunda.

(Geir Gígja.)

Kveðja,

Sigurrós Gissurardóttir.