Snorri Gunnlaugsson Þegar Snorri Gunnlaugsson, verslunarmaður á Patreksfirði, er lagður til hinstu hvíldar, koma margvíslegar minningar upp í hugann. Minningin um fjölmargar samverustundir, sérstaklega frá æskuárunum, rifjast upp og fylla hugann hlýju til þessa góða drengs. Vinátta okkar hefur staðið allt frá haustinu 1933, þegar foreldrar hans fluttust í þorpið á Patreksfirði og settust að í Merkisteini. Fyrstu kynni okkar urðu með þeim hætti, að þau hafa æ síðan orðið mér minnisstæð og ollu mér lengi hugarangri. Við vorum nokkrir smástrákar að leik við svonefnt Merkisteinsgil. Vorum að kasta smásteinum í blikkdósir, sem við höfðum stillt upp. Snorri stóð dálítið álengdar og tók ekki þátt í leiknum, líkast til verið eitthvað hikandi við að blanda sér í hópinn, þar sem hann var nýkominn í þorpið. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þreif ég eina steinvöluna og henti í átt til hans og hæfði hún í höfuð hans svo að blóð spratt fram. Strákarnir, sem með mér voru, fylgdu Snorra heim til móður hans eftir þessar köldu kveðjur. Ég hökti heim til mín og fyrirvarð mig svo hræðilega fyrir þetta "ódæðisverk" að ég faldi mig frammi í geymslu til að láta engan sjá mig. Seinna um daginn áræddi ég þó að fara út aftur og hitti þá Snorra á götunni og þorði vart að líta framan í hann, en hann tók mig tali og lét sem ekkert væri, og refsaði mér þannig eftirminnilega. Þar með hófst vinátta okkar, sem staðið hefur æ síðan.

Snorri Gunnlaugsson var kominn af mætu bændafólki á Barðaströnd. Faðir hans Gunnlaugur Kristófersson, bóndi og síðar verkamaður á Patreksfirði, var einn hinna fjölmörgu Brekkuvallasystkina. Hann var skynsamur maður og traustur. Kona hans og móðir Snorra var Sigríður Ólafsdóttir frá Miðhlíð á Barðaströnd, stillt og góð kona. Frændgarður Snorra í báðar ættir setti mikinn svip á mannlíf á Barðaströnd á fyrrihluta og um miðbik þessarar aldar. Eins og áður sagði fluttust þau til Patreksfjarðar 1933 og lifðu þar langa ævi.

Snorri kvæntist góðri og elskuríkri konu, Láru Kolbeins, og hafa þau búið allan sinn búskap á Patreksfirði. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn, sem öll hafa stofnað sín heimili og eignast afkomendur.

Snorri hlaut í vöggugjöf góðar gáfur. Í barnaskóla kom í ljós að hann hafði góða námshæfileika, en einhverra hluta vegna stóð ekki hugur hans til langskólanáms en ég álít að hann hafi verið vel til slíks fallinn. Eins og títt var um unglinga millistríðsáranna fór Snorri snemma að vinna og lá leið hans þá fyrst á sjóinn, enda atvinnuhættir ekki fjölbreyttir í íslenskum sjávarþorpum á þeim tíma.

Snorri rækti af trúmennsku ýmiskonar félagsmálastörf í samfélaginu. Hann tók um árabil virkan þátt í starfi Verkalýðsfélags Patreksfjarðar og sat í stjórn þess í 12 ár. Á þeim árum sat hann á nokkrum þingum Alþýðusambandsins. Á árunum 1978 til 1985 var hann í stjórn Hraðfrystihúss Patreksfjarðar hf.

Snorri hafði yndi af bóklestri og minnist ég þess frá æsku- og unglingsárum að við áttum saman margar ferðir í Lestrarfélag staðarins (bókasafn) til að verða okkur úti um lestrarefni. Þá hafði hann ánægju af að blanda geði við fólk við spila- og skákborðið. Hann varð snemma góður skákmaður og þreytti þá göfugu íþrótt lengi framan af ævi.

Með þessum fátæklegu skrifum mínum vil ég flytja Snorra hinstu kveðju og þakklæti fyrir löng kynni. Ofarlega er mér þá í huga vinátta hans og hjálpsemi á æskuárum okkar. Í vitund minni er mikil heiðríkja yfir þeirri fölskvalausu vináttu, sem hann jafnan sýndi mér. Enda þótt vík yrði milli vina á síðari árum, af skiljanlegum ástæðum, höfðum við alltaf nokkurt samband. Við hjónin nutum oft gestrisni þeirra Snorra og Láru á heimili þeirra á Patreksfirði.

Með Snorra Gunnlaugssyni er genginn, fyrir aldur fram, góður drengur, traustur og heiðarlegur, sem ekki mátti vamm sitt vita.

Við Olla sendum Láru og börnum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Vikar Davíðsson.