Ágúst Eyjólfsson Enn er vegið í sama knérunn. Annar bróðir frá Hvammi er dáinn á nokkrum vikum. Eftir stendur magnþrota fjölskylda, syrgjandi ástvinir, börn, foreldrar, systkini og vinir. Ágúst Sigurvin var glæsimenni, sem allir hændust að. Hávaxinn, bjartur, kröftugur og ljúfur. Allt lék honum í hendi strax í æsku. Hann ólst upp á foreldraheimilinu, Hvammi á Landi, í stórum glaðværum systkinahópi. Verkefnin voru mörg á heimilinu og mikið yndi hafði Ágúst af hestum, fé og reyndar öllu því, sem sýslað er með til sveita.

Á sextánda ári lá leiðin til sjós, bæði á varðskipum og hjá Eimskip. Svo var komið við heima á haustin, farið á fjall og tekið til við haustverkin.

Um tvítugt hóf Gústi málaranám í Reykjavík og bjó þá hjá ömmu sinni Sigurlaugu. Að námi loknu bauðst honum starf í Svíþjóð við iðn sína. Í ársbyrjun 1970 fór hann svo utan og starfaði þar æ síðan, síðast sem sjálfstæður iðnrekandi.

Ég kynntist Ágústi, þegar hann bjó hjá ömmu sinni. Betri mann var ekki hægt að hafa nálægt sér. Ágúst hafði líka fengið í vöggugjöf sumt það besta í lífinu, ástríka foreldra, sem allir þekktu og dáðu, yndisleg systkini og heimilisbrag, sem orðlagður var fyrir myndarskap og drift.

Gústi vissi af þessum óskabyr, en vissi líka að fylgjast þurfti með hverju segli, svo ekki slægi í baksegl. Hann var mjög kröfuharður við sjálfan sig og slíkum er oft hætt við ofurviðkvæmni.

Hann fékk sínar gusur í lífinu og hafknörrinn glæsta fyllti í stóru brotunum. Austurinn er alltaf í eigin hendi og sársaukinn líka. Sá, sem aldrei leggur á djúpið, fær ekki slettu ­ frekar en hann nokkurn tíma kynnist hafinu.

Ég votta börnum Ágústs mína dýpstu samúð, foreldrum, systkinum, ástvinum og vinum öllum. Á innan við mánuði eru tveir bræður frá Hvammi lagðir til hinstu hvílu í Skarðskirkjugarði. Algóður Guð styrki fólkið og gefi Ágústi mínum sinn frið.

Guðlaugur Tryggvi Karlsson.