Ágúst Eyjólfsson Ágúst frændi okkar Eyjólfsson, frá Hvammi í Landsveit, féll frá nánast fyrirvaralaust á heimili sínu í Stokkhólmi sl. föstudag. Skammt er nú stórra högga á milli í Hvammsfjölskyldunni við skyndileg dauðsföll tveggja elstu bræðranna, Ágústs og Kristins, í blóma lífsins með 23 daga millibili. Er mikill og helsár harmur kveðinn að öllum aðstandendum. Ágúst hafði verið búsettur í Svíþjóð s.l. áratugi, þannig að við þekktum hann ekki mikið sem fullorðinn mann. Hins vegar er hann ljóslifandi í æskuminningu okkar, hugprúður og kátur, ljúfur og hjálpsamur, frændinn í Hvammi, bjartur yfirlitum, í stóra, góða frændsystkinahópnum þar. Í þau fáu skipti, sem við hittum hann í seinni tíð, var hann okkur ætíð sem fyrr, frændrækinn, heill. Engan hefði órað fyrir, að síðustu fundir yrðu yfir moldum Kristins bróður hans 23. nóvember sl.

Við bræðurnir minnumst Ágústs með væntumþykju og hlýjum hug. Við finnum sárar en tárum taki til með foreldrum þeirra, Eyjólfi frænda og Dúnu, systkinum, maka, börnum og frændgarði öllum. Það nístir að beini. Við biðjum algóðan Guð að geyma þessa skyndilega gengnu frændur okkar. Við biðjum Hann að blessa í ranni Hvammsfjölskyldunnar. Við biðjum Drottin að leggja líkn með þraut.

Ágúst og Stefán Þórðarsynir

og Páll Bragi Kristjónsson.