22. desember 1996 | Menningarlíf | 526 orð

"Íslenskt eldfjall" gýs á Ítalíu Kontraalt söngkonan Elsa Waage hélt þann 12.

"Íslenskt eldfjall" gýs á Ítalíu Kontraalt söngkonan Elsa Waage hélt þann 12. desember síðastliðinn tónleika í óperuhúsinu í Como á Ítalíu til styrktar Casa TeleThon. Guðlaug L. Arnar, fréttaritari Morgunblaðsins í Mílanó, segir hér frá tónleikunum.

"Íslenskt eldfjall" gýs á Ítalíu Kontraalt söngkonan Elsa Waage hélt þann 12. desember síðastliðinn tónleika í óperuhúsinu í Como á Ítalíu til styrktar Casa TeleThon. Guðlaug L. Arnar, fréttaritari Morgunblaðsins í Mílanó, segir hér frá tónleikunum. CASA TeleThon eru samtök sem einbeita sér að rannsókn sjúkdóma á borð við vöðvarýrnun og vöðvalömun og hefur undanfarið verið gert mikið söfnunarátak af hálfu samtakanna í löndum eins og Sviss, Ítalíu og Frakklandi, þar sem safnast hefur umtalsvert fé. Það voru bæjaryfirvöld í Como sem leituðu til Elsu og voru tónleikarnir haldnir í nær 200 ára gömlu óperu- og leikhúsi bæjarins Teatro Sociale di Como en allur ágóði af þeim gekk til rannsókna á sjúkdómunum.

Canzoni d'amore

Tónleikarnir báru yfirheitið ástarljóð eða "Canzoni d'amore" og hófust á flutningi Elsu á Vergebliches Ständchen og fleiri sígildum verkum Bramhs sem hún fylgdi fast á eftir með nokkrum ljóða Grieg. Þá vakti Elsa bæði mikla og jákvæða athygli áhorfenda þegar hún söng á móðurmáli sínu lög eins og Draumaland eftir Sigfús Einarson, Ég lít í anda liðna tíð Sigvalda Kaldalóns og Fuglinn í fjörunni eftir Jón Þórarinsson. Ekki varð hrifning Ítala minni þegar hún söng þrjú af ástarljóðum Tosti en Elsa þykir hafa sérlega hlýja og líflega sviðsframkomu og ná þannig oft persónulegu sambandi við áhorfendur sína ­ brást það heldur ekki að þessu sinni.

Á seinni hluta tónleikanna fengu áhorfendur meðal annars að njóta túlkunar Elsu á Kátu ekkjunni úr Walzer eftir tónskáldið Franz Lehár en hún kom einnig við í Túskildingsóperunni eftir Kurt Weill. Í lokin sló Elsa á létta strengi og söng nokkur valin lög úr söngleikjunum My Fair Lady og West Side Story við góðar undirtektir áhorfenda sem hún kvaddi með skemmtilegri kynningu og söng á lagi Sigfúsar Halldórssonar, Tondeleo.

Á tónleikunum naut Elsa Waage undirleiks hins unga og margverðlaunaða píanista Giovannis Brollo og hlutu þau bæði mjög góða dóma ítalskra tónlistargagnrýnenda. En í blaðaskrifum var Elsa meðal annars nefnd "íslenska eldfjallið" þar sem vitnað var í kraftmikla og náttúrulega rödd hinnar íslensku söngkonu og stíl um leið og heillandi sviðsframkomu.

Valkyrjur Wagners

Elsu Waage bíða krefjandi og spennandi verkefni en henni hefur verið boðið að taka að sér hlutverk einnar valkyrjunnar í tónlistaruppfærslu RAI Torino í Tóríno á Ítalíu, á Valkyrjum Richards Wagners í mars á næsta ári. Hún ætlar þó að gefa sér tíma, áður en hún hellir sér að fullu í æfingar, til að skjótast heim því í undirbúningi eru tónleikar hennar í Íslensku óperunni á vegum Styrktarfélagsins og Wagnerfélagsins. Þar mun hún meðal annars flytja nokkur af tónverkum Wagners en rödd Elsu þykir njóta sín sérlega vel í verkum meistarans. Tónleikarnir verða haldnir þann 11. febrúar og hefur Elsa fengið til liðs við sig píanóleikara Scala Óperunnar í Mílanó, Miza Bachturitze. Naut Elsa undirleiks Bachturitze á tónleikum sínum á Scalasafninu fyrr á árinu sem haldnir voru í minningu Clöru Schumann.

Þrátt fyrir stutt stopp Elsu Waage heima um jólin mun borgarbúum gefast tækifæri til að njóta söngs hennar því hún mun syngja einsöng í Neskirkju á aðfangadagskvöld við undirleik organistans Reynis Halldórssonar og við messu í Áskirkju á jóladag við undirleik Kristins Sigtryggssonar.

ELSA Waage vakti hrifningu í Como.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.