12. janúar 1997 | Menningarlíf | 322 orð

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins

Þórarinn og Sigrún Eldjárn hlutu viðurkenningu SYSTKININ Þórarinn og Sigrún Eldjárn hafa hlotið viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf að upphæð krónur 400.000 hvort. Bæði sögðust þau vera stolt af því að hafa fengið þessa

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins

Þórarinn og Sigrún Eldjárn hlutu viðurkenningu

SYSTKININ Þórarinn og Sigrún Eldjárn hafa hlotið viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf að upphæð krónur 400.000 hvort. Bæði sögðust þau vera stolt af því að hafa fengið þessa viðurkenningu á störfum sínum en þau hafa unnið talsvert saman.

"Við höfum starfað saman að nokkrum barnabókum á undanförnum árum," sagði Þórarinn í samtali við Morgunblaðið. "Annars vegar hefur Sigrún myndskreytt ljóð eftir mig og hins vegar hef ég ljóðskreytt myndir hennar. Þetta hefur verið spurningin um það hvað hefur orðið til á undan en vissulega er það óvenjulegra að myndir séu ljóðskreyttar."

Þórarinn gaf út skáldsöguna Brotahöfuð um jólin og segist hann vera afar ánægður með viðtökurnar, jafnt gagnrýnenda sem almennra lesenda. "Sem stendur er ég að vinna að þýðingu á bók eftir sænska rithöfundinn Göran Tunström sem hefur Ísland að sögusviði. Bókin mun koma út í febrúar. Annars er maður bara að átta sig eftir jólatörnina og viðurkenning sem þessi örvar mann vissulega til dáða."

Sigrún segist vera að vinna að málverkasýningu sem hún mun halda í vor. "Svo er ég búin að leggja drög að nýrri barnabók. Í henni mun ég bæði skrifa textann og gera myndirnar."

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins var stofnaður árið 1956. Tekjur sjóðsins eru árlegt framlag Ríkisútvarpsins samkvæmt samningi við Rithöfundasamband Íslands, vextir af innstæðu og höfundalaun sem Ríkisútvarpinu ber að greiða höfundum samkvæmt samningi en höfundar finnast ekki að og frjáls framlög hverju nafni sem nefnist.

Í stjórn sjóðsins sitja Eiríkur Hreinn Finnbogason, skipaður af menntamálaráðherra, og er hann formaður, Jón Karl Helgason og Sigurður Valgeirsson, skipaðir af Ríkisútvarpinu, og Steinunn Jóhannesdóttir og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skipuð af Rithöfundasambandi Íslands.

Þórarinn Eldjárn

Sigrún Eldjárn

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.