Þorsteinn Thorarensen

Fyrir um 250 árum flutti Þorsteinn Magnússon, sýslumaður, að Móeiðarhvoli í Rangárvallasýslu. Hann varð fyrstur Íslendinga candidatus juris 1738 og segir í Sýslumannaævum að sýslubúar hafi fremur haft ótta af honum en elsku. Hefur sama ættin setið jörðina fram undir þetta því Þorsteinn Thorarensen, sem kvaddur er í dag, stóð þar síðastur fyrir búi sinna kynsmanna um 1944. Síðan var hann þar oft í tómstundum sínum. Hinir fyrri ábúendur þar voru jafnframt embættismenn; sýslumenn og þar sat Skúli Thorarensen, langafi Þorsteins og héraðslæknir, um miðja 19. öld.

Til er hugleiðing eftir dr. Helga Pjeturs um ljósmynd af Skúla lækni. Þar stendur m.a.: "Það er mikið að sjá þegar litið er á þessa mynd af Skúla lækni á Móeiðarhvoli og sést þó vitanlega ekki að maðurinn var þrjár álnir á hæð og mjög þrekinn og vel vaxinn. Engum getur blandast hugur um að þarna er mynd af stórættuðum manni og sönnum höfðingja. Svipurinn er mikilúðlegur og þó góðmannlegur. Hakan sterkleg mjög en munnurinn fríður. Ef til vill eru þó augun eftirtektarverðust; þau eru svo greindarleg og lýsa svo frábærri sál. Myndin ber það ekki einungis með sér að hún er af mikilmenni, heldur einnig að þessi svipmikli maður er íslenskur. Og ef íslenskum listamönnum er nokkur hugur á að gera góðar myndir við Sögurnar þá ættu þeir að virða fyrir sér þessa mynd af íslensku mikilmenni. Skúli var maður vel ættaður, sonur Vigfúsar sýslumanns á Hlíðarenda, Þórarinssonar á Grund, og Sigríðar Stefánsdóttur systur Ólafs stiftamtmanns. En móðir Skúla var Steinunn, dóttir hins ágæta manns Bjarna Pálssonar náttúrfræðings og landlæknis og Rannveigar Skúladóttur fógeta."

Jón Borgfirðingur kom að Móeiðarhvoli 2. júlí 1861. Skúli læknir var ekki heima en hann hitti konu hans, Guðrúnu Þorsteinsdóttur frá Reykholti, og segir hann í ferðasögu sinni að hún sé gáfuð og kvenskörungur. Á Móeiðarhvoli sé ríkmannlegt umhorfs og landslag fallegt.

Þegar ég varð fulltrúi við borgarfógetaembættið í ársbyrjun 1979 tókst strax góður kunningsskapur með okkur Þorsteini. Var töluverður skyldleiki með okkur og auk þess höfðum við báðir gaman af fróðleik, gömlum og nýjum. Þorsteinn var búinn að starfa við þetta embætti áratugum saman og var nánast alfræðibók um fógetarétt sem á mínum tíma í lagadeild var heldur vanrækt grein. Þau störf, sem fógetar gegndu fyrir réttarfarsbreytinguna 1992, voru vandasöm þar sem þau snertu mjög persónu gerðarþola, ekki síst svokallaðar beinar fógetagerðir; innsetningar- og útburðargerðir. Var því mér og fleirum nokkurt undrunarefni að Þorsteinn sótti aldrei um önnur embætti sem hann hefði, að minnsta kosti á síðari árum, átt góða möguleika á að fá veitingu fyrir. Ef til vill hefur hann sjálfur skýrt það best í bréfi, sem hann skrifaði mér til Kaupmannahafnar í júní 1982, hví svo varð ekki:

"Já, þetta mjakast svona áfram held ég að ég verði að segja. Hver dagurinn öðrum líkur og það er akkúrat það sem maður kann best við. Það var um tíma, að maður var efins í því hvort það væri nú einmitt það ídeal, sem mann dreymdi um þar austur í eystri kirkjusóknum Suðurlands: að skrifa upp stóla og saumamaskínur hjá náunganum. Ég er samt ekki frá því að þetta sé ekkert verri karrier en hvað annað. Eins og kerlingin Guðríður Jónsdóttir: hún var einu sinni að þerra ungbarnahland af gólfinu og ég, strákurinn, lét þau orð falla að þetta væri ógeðslegur starfi, en fékk það svar: og heldurðu að það sé nú svoleiðis í lífinu að maður komist hjá verkum þótt þau séu ekki upp á það allra hreinlegasta?"

Það sem gerði Þorstein tiltölulega sáttan við fógetastörfin hefur sennilega verið það að hann átti áhugamál sem hann sinnti í tómstundum. Áður hefur verið minnst á að hann var fróðleiksmaður og eitthvað skrifaði hann niður af slíku efni. En ekki síður held ég að latína og málvísindi hafi verið honum hugstæð. Sagði hann mér sjálfur að þeir bekkjarbræðurnir, Hannes Þórarinsson, síðar læknir, hefðu orðið svo hugfangnir af latínu í skóla að þeir hefðu farið að lesa hana meira en krafist var til stúdentsprófs. Síðan var Þorsteinn í latínunámi í guðfræðideild og með sjálfsnámi hugsa ég að hann hafi orðið með bestu latínumönnum landsins, næst Jakobi Benediktssyni. Á sjötugsafmæli hans sendi ég honum heillaskeyti á latínu en hann svaraði með svohljóðandi þakkarbréfi:

"Lapis audacitiæ prolesque foci fulminis deitatis nunc Paulo Sculio, jurisprudentiæ amico, debitas gratias pro benevolentia ejus erga se referre vult". Þetta mun þýða: Þorsteinn vill hér með flytja Páli Skúlasyni, sínum löglærða vini, bestu þekkir fyrir sýndan sóma. Þess má geta að þessi latína er svo snúin að mestu spekingar áttu í erfiðleikum með að þýða hana fyrir mig.

Þorsteinn fór á efri árum að kenna við lagadeild og náði slíkum vinsældum nemenda sinna að fágætt er. Enda hafði hann það til að bera sem háskólakennari þarf að hafa; ágæta þekkingu, gamansemi og velvilja í garð stúdenta. Ég get ekki stillt mig um að vitna enn í bréf til mín er ég var við framhaldsnám í Kaupmannahöfn 1982:

"Maður á að fara að kenna gjaldþrotarétt upp í deild næsta vetur, það er því eins gott að fá fagið á heilann eins fljótt og veða má ­ eða án ástæðulausrar tafar. . . .

Morgunblaðsmenn unnu kosningar í Reykjavík. Þessi maður kaus árla morguns, og svo eins og andskotinn austur í Oddasókn aleinn, sat þar við lærdóm lengi dags, gekk með byssu að leita að mink um 11-leytið í hraglandi rigningu en sá engan ­ en golan var úr hafi. Galopnaði svo bílinn og spennti upp radío og lagðist svo í móann með eina sherry, Walnut Brown, sem mér líkar einna best. Þetta voru geysilega merkilegar stundir og lagaðar til að lypta huga manns til upphæða. Það varð strax ljóst við fyrstu tölur hvert stefndi, alls staðar sami tendensinn um allt land. Þegar klukkan var orðin nærfelt tvö var ekkert annað að gera en fara að aka austur í Breiðabólsstaðarsókn. Nálægt Sámsstöðum komu fréttir um að Morgunblaðsmenn hefðu sex af níu í Eyjum. Þá voru Eyjar fallagar þótt ekki sæist til þeirra í svip fyrir vætuskýjum, ­ en ég vissi hvar þær voru allt um það."

Nú í desember hafði ég samband við Þorstein og spurði hann hvort hann vildi ekki leyfa mér að skrifa niður eftir sér frásagnir, sem ég gæti birt í Skildi, tímariti sem ég gef út. Hann tók dræmt í það. Ég hélt að það væri af hlédrægni en sennilega hefur hann verið lasinn enda lokadagurinn skammt undan þótt enginn vissi það þá. Við ákváðum þó að hittast bráðlega en það verður ekki hérna megin grafar úr því sem komið er. Guð blessi minningu hans.

Páll Skúlason.