Hvað er Parkinsonsveiki? Magnús Jóhannsson læknir svarar spurningum lesenda Hrörnunarsjúkdómur Spurning: Af hverju fær fólk Parkinsonsveiki? Er það samfara öðrum sjúkdómum eða vantar líkamann einhver efni, eða er það háð hormónastarfsemi líkamans? Er...

Hvað er Parkinsonsveiki? Magnús Jóhannsson læknir svarar spurningum lesenda Hrörnunarsjúkdómur Spurning: Af hverju fær fólk Parkinsonsveiki? Er það samfara öðrum sjúkdómum eða vantar líkamann einhver efni, eða er það háð hormónastarfsemi líkamans? Er Parkinsonsveiki læknanleg eða eru til einhver lyf sem geta haldið henni í skefjum?

Svar: Parkinsonsveiki (einnig nefnd Parkinsons-sjúkdómur eða lamariða) er kennd við enska lækninn James Parkinson sem lýsti veikinni fyrstur manna árið 1817. Parkinsonsveiki er hrörnunarsjúkdómur í miðtaugakerfi sem leggst aðallega á þær taugafrumur í heilanum sem stjórna hreyfingum. Þessar taugafrumur mynda taugaboðefnið dópamín sem flytur boð frá einni taugafrumu til annarrar. Í Parkinsonsveiki minnkar hæfileiki þessara frumna til að mynda dópamín og það bitnar á ýmsum hreyfingum eins og gangi, handahreyfingum og svipbrigðum. Orsakir Parkinsonsveiki eru óþekktar en svipuð einkenni geta komið sem aukaverkanir sumra geðlyfja, eftir heilabólgu, höfuðáverka, heilablæðingu, við koloxíðeitrun eða heilaæxli. Einkenni sjúkdómsins koma hægt og sígandi á mörgum árum og fyrstu einkennin eru oft þau að viðkomandi dregur aðeins annan fótinn við gang, er stirður í útlimum eða hefur vægan handskjálfta. Þegar sjúkdómurinn versnar eru einkennin oft mjög dæmigerð fyrir Parkinsonsveiki en þar er um að ræða svipbrigðalaust andlit, augnlokum er sjaldan deplað, munnur er oft svolítið opinn og munnvatnsmyndun aukin, útlimir eru stífir og sjúklingurinn stendur álútur, margir eiga erfitt með gang og ganga með stuttum óöruggum skrefum og sumir hafa handskjálfta. Skjálfti versnar við spennu og þreytu en hverfur í svefni. Sérstakt form af handskjálfta við Parkinsonsveiki er að þumli og vísifingri er stöðugt nuddað saman. Það sem umfram allt einkennir sjúklinga með Parkinsonsveiki er frosið, svipbrigðalaust andlit og fátæklegar hreyfingar.

Parkinsonsveiki getur komið á öllum aldri en byrjar sjaldan fyrir fertugt og meðalaldur þegar fólk veikist er talinn vera um 60 ár. Talið er að um 1% fólks 65 ára og eldri sé með Parkinsonsveiki þannig að þetta er ekki sjaldgæfur sjúkdómur. Venjulega koma sjúkdómseinkennin hægt og sígandi á mörgum árum, eins og áður sagði, og það er mjög misjafnt hve alvarlegur sjúkdómurinn verður. Sumir fá einungis tiltölulega væg einkenni sem ekki há þeim mikið, en aðrir (mikill minnihluti) verða að lokum alvarlega veikir og deyja af afleiðingum sjúkdómsins. Parkinsonsveiki hefur þó alltaf tilhneigingu til að versna jafnt og þétt og engin meðferð er þekkt sem getur stöðvað þróun sjúkdómsins. Þeir sem veikjast geta þó átt framundan fjöldamörg góð ár áður en sjúkdómurinn fer að há þeim að nokkru marki. Margir sjúklingar með Parkinsonsveiki verða þunglyndir og þurfa meðferð við því. Þar að auki þjáist um þriðjungur sjúklinganna að lokum af mismikilli andlegri hrörnun.

Á meðan einkenni sjúkdómsins eru það væg að þau trufla ekki dagleg störf fólks, er ekki ástæða til að gefa neina meðferð. Mjög mikilvægt er að lifa heilsusamlegu lífi og stunda hæfilega líkamsþjálfun. Sumir þurfa að hvíla sig einhvern tíma dagsins og nauðsynlegt er að forðast þreytu og streitu vegna þess að slíkt gerir einkenni veikinnar verri. Sjúklingarnir þurfa oft andlegan stuðning og uppörvun þannig að fjölskylda, vinir og vinnufélagar geta hjálpað mikið. Flestir þurfa að lokum á meðferð að halda og miðar lyfjameðferð að því að auðvelda gang og aðrar hreyfingar og losa sjúklinginn við skjálfta. Til eru nokkur lyf sem geta hjálpað mikið með því að auka framboð taugaboðefnisins dópamíns í heilanum (einkum levódópa) og nokkur önnur lyf geta gert gagn á annan hátt. Engin lyf eru án aukaverkana og þessi lyf geta valdið ósjálfráðum hreyfingum, ógleði, svima og fleiru. Fylgjast þarf vel með sjúklingunum og oft þarf að prófa mismunandi lyf og breyta skömmtum eftir gangi sjúkdómsins. Gerðar hafa verið tilraunir með ýmiss konar skurðaðgerðir gegn einkennum sjúkdómsins og stundum tekst t.d. að minnka skjálfta með heilaaðgerð. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með að flytja bita úr nýrnahettumerg á ákveðna staði í heilanum. Vegna mikilla rannsókna á þessu sviði má gera ráð fyrir talsverðum framförum á næstu árum, bæði varðandi lyfjameðferð og skurðaðgerðir.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 5691222.