Fyrirlestur um þjóðgarða Ameríku FYRSTI fræðslufundur Hins íslenska náttúrufræðifélags á nýbyrjuðu ári verður mánudaginn 27. janúar kl. 20.30. Fundurinn verður haldinn í stofu 101 í Lögbergi.

Fyrirlestur um þjóðgarða Ameríku

FYRSTI fræðslufundur Hins íslenska náttúrufræðifélags á nýbyrjuðu ári verður mánudaginn 27. janúar kl. 20.30. Fundurinn verður haldinn í stofu 101 í Lögbergi. Á fundinum flytur Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði, erindi sem hún nefnir: Þjóðgarðar í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Í fyrirlestrinum verða sýndar myndir og sagt frá nokkrum þjóðgörðum í Bandaríkjunum. Einkum verður fjallað um gróðurfar og einnig um önnur sérkenni þeirra.

Yellowstone, elsti þjóðgarður heims, er gríðarstór að flatarmáli, á stærð við Vatnajökul. Hann er þekktur fyrir stórbrotið landslag en ekki síður fyrir ríkulegt dýralíf. Um þrír fjórðu hlutar hans brunnu í miklum skógareldum árið 1988. Rocky Mountains-þjóðgarðurinn spannar yfir 2.000 metra hæðarmun og þar sjást vel gróðurbreytingar með hæð, frá skógum úr ponderosafurum neðst upp í trjálausa túndru í nær 4.000 metra hæð. Everglades-þjóðgarðurinn er einstætt, marflatt votlendi á syðsta hluta Flórídaskaga. Lífríki Everglades er nú ógnað vegna síaukinnar byggðar sem raskar vatnabúskap og útbreiðslu framandi plöntutegunda. Í Mesa Verda-þjóðgarðinum og Canyon de Chelly-friðlandinu í Arizona eru sérkennilegar og vel varðveittar indíánabyggðir með húsum sem hlaðin voru inn í hvelfingar í miklum gljúfrum. Landslag er þarna einnig stórbrotið og hrjóstrugt. Ef tími vinnst til verður einnig stuttlega sagt frá Arches-þjóðgarðinum.