Baráttan við aukakílóin BÆKUR Næringarfræði ÉG BORÐA ­ EN GRENNIST SAMT! eftir Michel Montignac. Þýðandi: Guðrún Finnbogadóttir. Prentun: Prentsmiðjan Oddi hf. Útg. Fróði hf. 1996.

Baráttan við aukakílóin BÆKUR Næringarfræði ÉG BORÐA ­ EN GRENNIST SAMT! eftir Michel Montignac. Þýðandi: Guðrún Finnbogadóttir. Prentun: Prentsmiðjan Oddi hf. Útg. Fróði hf. 1996.

MICHEL Montignac er franskur næringarfræðingur sem í æsku var of feitlaginn. Hann hefur sett fram kenningar um mataræði og skrifað bækur, sem farið hafa sannkallaða sigurför um heiminn eftir því sem segir á bókarkápu. Það að bækur hafi orðið metsölubækur úti í hinum stóra heimi er reyndar ekki trygging fyrir að í þær sé varið, eins og menn vita, en við lestur þessarar bókar virtist mér að í þetta sinn hefðu vinsældir verið verðskuldaðar.

Allir þeir, sem barizt hafa við aukakílóin, og þeir eru fjölmargir, vita, hve erfitt getur verið að komast í kjörþyngd. Endalausir megrunarkúrar, áramótaheiti um nýtt og betra líf, strengja þess heit að fara í leikfimi, gönguferðir, sund, fitubrennslu, líkamsrækt eða hvað nú verður fyrir valinu. Allt kemur þó fyrir ekki, keppirnir gefa sig ekki og holdið er veikt. Fyrirheitin fara fyrir lítið. Ætli það séu ekki æði margir sem finnst lýsingin eiga vel við sig?

Michel Montignac tekur öðruvísu á málinu en margir aðrir og það afar skynsamlega sýnist mér. Hann setur sér það markmið með bók sinni að kenna fólki að borða. Lífsstíll og breytt mataræði eru leiðarljós hans og hann leitast við að sameina næringarfræði og matargerðarlist. Hann bendir á að maður fitni ekki af því að borða mat, heldur af því að borða rangan mat. Þess vegna þarf að læra að borða hollari mat og ná jafnvægi hvað líkamsþyngd varðar, án þess að þurfa að neita sér um góðan mat. Hann hafnar hitaeiningaaðferðinni, gagnrýnir óhóflega vinnslu nokkurra matartegunda, vill auka til muna trefjar í fæðu, og gera greinarmun á slæmum kolvetnum og góðum kolvetnum og sömuleiðis góðum fituefnum og slæmum. Hann vekur athygli á fæðutegundum sem ekki eiga að vera í sömu máltíð, fari ekki saman.

Markmiðið er að grennast og fitna aldrei aftur. Aðferðin skiptist í tvo hluta, stig I, megrunina sjálfa og að henni lokinni stig II, að viðhalda jafnvægi í þyngd. Rétt er að gera kröfur sem eru raunhæfar en þó metnaðarfullar. Miklu máli skiptir að sleppa ekki máltíðum. Stigi I lýkur ekki fyrr en aukakílóin eru farin, en mislangan tíma tekur að ná sykurþolinu í eðlilegt horf. Á stigi II er nauðsynlegt að vera alla ævi, en á því stigi er ekkert eða svo til ekkert bannað sé aðgát höfð.

Þessi bók er skemmtileg aflestrar, þýðing ágæt og áhugaverðar kenningar eru þar settar fram, sem gaman verður að spreyta sig á. Þá er bara að hefjast handa!

Katrín Fjeldsted