Aðför að íslenskri náttúru Þórði Halldórssyni: STJÓRN Vors lýsir yfir fullum stuðningi við íbúa við Hvalfjörð gegn áformum um byggingu álvers á Grundartanga.

Aðför að íslenskri náttúru Þórði Halldórssyni:

STJÓRN Vors lýsir yfir fullum stuðningi við íbúa við Hvalfjörð gegn áformum um byggingu álvers á Grundartanga. Fundurinn lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá blindu og einstrengingshátt sem einkennt hefur afstöðu stjórnvalda í málinu. Sú spurning vaknar hvort stefna stjórnvalda í mannvirðingu og umhverfisvernd sé aðeins skrautyrði til notkunar á hátíðis- og tyllidögum, en í annan tíma sé þeim varpað fyrir róða. Þessi grunsemd verður æ áleitnari þegar skoðaður er bæklingur Landsvirkjunar og Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis, útgefinn í janúar 1995 (fæst á bókasafni Landsvirkjunar og í iðnaðarráðuneyti).

Þar kemur fram að fjárfesting í stóriðju hér á landi til nýtingar á ódýru rafmagni er studd þeim rökum að hér sé ódýrasta vinnuaflið og minnstu kröfur gerðar til umhverfisverndar (minimum of environmental red tape). Þetta atriði virðist vera í góðu samræmi við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið varðandi staðsetningu álvers í Hvalfirði, og þær kröfur sem stjórnvöld gera þar til mengunarvarna.

Þetta vekur upp spurningar um það við hverju íslenskir framleiðendur lífrænna vara og aðrir unnendur íslenskrar náttúru megi búast í náinni framtíð. Eitt af markmiðum lífrænna framleiðenda er að vernda og bæta jarðveginn sem ræktað er í og framleiða holla ómengaða vöru um leið og stuðlað er að því að komandi kynslóðir fái notið þeirra gæða sem jörðin gefur. Staðsetning mengandi stóriðju í nágrenni slíkrar framleiðslu er í hróplegri andstöðu við slík markmið og óskiljanlegt með öllu að því græna svæði í umhverfi Hvalfjarðar eigi að fórna undir slíka starfsemi.

Fundurinn hafnar því að umhvefisstefna iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar sem felur í sér lágmarks umhverfisvernd sé látin ráða í þessu máli sem öðrum.

Stjórnin vill hvetja alla þá sem telja sig málið varða að fylgjast grannt með atferli stjórnvalda og málsmeðferð allri varðandi staðsetningu og mengunarkröfur til hugsanlegs álvers í Hvalfirði.

Ef slík fyrirætlan gengur eftir hlýtur það að teljast aðför að íslenskri náttúru og öllum þeim hagsmunaaðilum öðrum sem landið nytja á þessum slóðum, hvort sem er til matvælaframleiðslu eða til markaðssetningar í ferðaþjónustu. Þess vegna vill fundurinn beina þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að áðurnefnd staðsetning á álveri verði nú þegar tekin til endurskoðunar og að mannvirðing og umhverfisvernd sé höfð að leiðarljósi þegar ákvarðanir um frekari stóriðju hér á landi verða teknar.

ÞÓRÐUR HALLDÓRSSON,

Akri,

formaður stjórnar VOR.