Nokkur orð um Nixon, Lífsvog og landlæknisembættið Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur, Ásdísi Frímannsdóttur og Ester Sveinbjarnardóttur: MIÐVIKUDAGINN 15. janúar sendir landlæknir Ólafur Ólafsson, svargrein við grein Lífsvogar "Sannleikurinn er sagna bestur"...

Nokkur orð um Nixon, Lífsvog og landlæknisembættið Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur, Ásdísi Frímannsdóttur og Ester Sveinbjarnardóttur:

MIÐVIKUDAGINN 15. janúar sendir landlæknir Ólafur Ólafsson, svargrein við grein Lífsvogar "Sannleikurinn er sagna bestur", greinina "Láttu þá neita því", þar sem hann líkir "óvenjulegum aðgerðum Lífsvogar" við aðgerðir kenndar við fyrrum forseta Bandaríkjanna Richard M. Nixon. Það skal tekið fram að forsvarsfólk Lífsvogar hefur aldrei hitt fyrrum forseta Bandaríkjanna, hvorki fyrr né eftir Watergatehneykslið, og hefur þar af leiðandi ekki eins mikla vitneskju og landlæknir virðist hafa um aðferðir hans. Við fögnum því hins vegar innilega að landlæknir skuli nú loks sjá ástæðu til þess að svara einni grein Lífsvogar af öllum þeim er birst hafa. Landlæknir segir í lið 2, að embættið beiti sömu aðferðum og tíðkast á Vesturlöndum. "Flestum málum er vísað til sérfræðinga, er ekki tengjast málinu "einnig" vísað til sérfræðinga erlendis í vaxandi mæli."

Við spyrjum til baka, því í ósköpunum er embættið að senda sjúklingum afrit af álitum (sjónarmiðum), lækna er kvartað er yfir og embættið leitar til? Hvað varðar tilvísun til erlendra sérfræðinga, þá var svo sannarlega tími til kominn, að sú nýbreytni líti dagsins ljós. Lífsvog bíður þess að sjá nöfn erlendra sérfræðinga, er staðfesta umbeðið álit, í málefnum sjúklinga. Landlæknir segir embættið vera í fyrsta sæti Norðurlandaþjóða, hvað varðar undirtektir í kvartana og kærumálum. Í hvaða sæti er Landlæknisembættið, hvað varðar eftirgöngu og aðgerðir gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum í kjölfar slíkra mála?

Lífsvog hefur ekki getað glöggvað sig á því enn sem komið er, því tölur hafa ekki fengist hjá embættinu, nema til ársins 1993, og hlutfallslegur samanburður er tíundaður var í grein Landlæknis, þann 16. febrúar 1995, skömmu eftir stofnun Lífsvogar, virtist vart marktækur, sökum mismunandi samanburðarára milli landa. Til upprifjunar er þar tekið 17 ára tímabil á Íslandi, (1976­1993), borið saman við 11 ára tímabil í Svíþjóð (1981­1992), og 4 ára tímabil í Danmörku (1989­1993), og útkoman, 6 íslenskir læknar sviptir læknisleyfi, 32 sænskir, og 10 danskir. Lífsvog hefur nú nýlega lagt það til við heilbrigðisnefnd Alþingis, að Tryggingastofnun ríkisins verði lögð niður, og faglegt mat látið ráða ferð í stað pólitískrar miðstýringar. Ef til vill gæti sjóði þeim er heitir sjúklingatryggingasjóður aukist fé við breytingu þessa. Einkastofur lækna eiga ekki að fá starfsleyfi hér á landi, nema tryggingar séu til staðar, hvað varðar hugsanleg mistök. Við teljum landlækni þurfa að sjá til þess að starfsemi sem slíkri sé þegar í stað lokað.

Landlæknir eignar Lífsvog setningu þess efnis, hvort hann sé óhæfur að fjalla um mál sjúklinga, þar sem hann sé læknir.

Þessi setning frá landlækni er ekki ættuð frá Lífsvog og hefur aldrei verið fram borið af hálfu samtakanna, og er hér með vísað til föðurhúsanna. Varðandi hina óháðu nefnd er starfar og landlæknir bendir á, er hún skipuð hjúkrunarfræðingi, lækni, og sýslumanni, almenningi til upplýsingar. Nefnd þessi fékk þrjú mál til umsagnar frá Lífsvog, í ágúst 1996, en fékk mál þessi endursend, sökum erfiðleika við ljósritun fyrir nefndarmenn, sem og vöntun á greinargerðum.

Lífsvog spurði nefndina hvort forsenda umfjöllunar hennar væri sú að sjúklingar þyrftu að bera kostnað af ljósritun, jafnframt hvort til væru sérstök eyðublöð til útfyllingar. Leið nú og beið, fram eftir haustmánuði. Loks fréttum við af bréfi á leið til okkar frá nefndinni, þar sem okkur var tjáð, að sjúklingar þyrftu ekki að bera kostnað, sem og að verið væri að útbúa eyðublöð fyrir nefndina.

Það hefur því allsendis ekki verið heiglum hent að koma málum fyrir nefnd þessa, en þann 15. janúar bárust loks tilbúin eyðublöð, og því hægt að láta reyna á umfjöllun um einstök mál.

Að lokum vill Lífsvog benda á, að við teljum embættisheiður hvers og eins embættismanns vera undir hans verkum kominn, í þjónustu við hið opinbera, fyrir fólkið í landinu.

F.h. samtakanna Lífsvogar.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,

ÁSDÍS FRÍMANNSDÓTTIR,

ESTER SVEINBJARNARDÓTTIR.