Tarzan og íslensk heimspeki Þorsteini Guðjónssyni: "TARZAN er að koma aftur," segja mér tíðindablöð (Mbl. og Alþbl. 17. og 18. jan.) og þykir mér gott að heyra. Tarzan var lesinn upp til agna, á mínum æskudögum.

Tarzan og íslensk heimspeki Þorsteini Guðjónssyni: "TARZAN er að koma aftur," segja mér tíðindablöð (Mbl. og Alþbl. 17. og 18. jan.) og þykir mér gott að heyra. Tarzan var lesinn upp til agna, á mínum æskudögum. Það sem nú er um að ræða er sýning í Þjóðarbókhlöðu á Tarzan-safni Richards Korns, kontrabassaleikara, og umsögn tveggja blaðamanna: Sigrúnar Björnsdóttur og Gunnars Hersveins, sem ég vil lítillega gagnrýna. Báðum mistókst að stafsetja nafn íslenska jarðfræðingsins dr. Helga Pjeturss, en hinsvegar vafðist ekki fyrir rithöfundinum Edgar Rice Burroughs að hafa það nafn rétt.

Gaman var að sjá þarna bréfaskipti Edgars Rice Burroughs, mrs. Harriet L. Green, dr. Helga Pjeturss og nokkurra annarra um kenningu hins síðastnefnda. Mrs. Green segir í bréfi til Rice Burroughs frá þessu máli, en hann þakkar henni fyrir og segir að þetta sé fögur kenning og miklu fullkomnari en nokkuð sem finnist í Biblíunni. Síðar skrifar hann einnig dr. Helga og þakkar honum. "Vildi ég óska að kenning yðar væri rétt ­ og þó einkanlega ef ég gæti í framlífi munað ævi mína hér." Þetta finnst mér gáfulega sagt hjá Edgar Rice Burroughs. Minningar eru kjarni lífsins.

Þó nokkuð virðist hafa verið um það á "millistríðsárunum" að menntamenn erlendis aðhylltust kenningu Nýals, enda var þá hugarfar betra og viturlegra en síðar varð. Bandarískur kapteinn, C.C. Coffey, sem löngu síðar varð bréfavinur minn, mundi eftir að segja mér, rétt áður en hann dó, frá því sem gerðist þegar hann kom inn á Reykjavíkurhöfn, í landgönguliði 1941 eða 2. Hafði hann orð á því við herlækninn sem stóð við hlið hans, hvað hann kynni vel við þennan stað "rétt eins og ég hefði komi hér áður". Herlæknirinn svaraði: "Þú talar eins og þú hafir kynnst kenningu dr. Helga Pjeturss. En það er ekki nóg að kannast við hana; menn verða að skilja hana og kunna að gera grein fyrir henni".

Þannig talaði bandarískur læknir á leið inn á Reykjavíkurhöfn árið 1941 eða 2.

ÞORSTEINN GUÐJÓNSSON,

Rauðalæk 14, Reykjavík.