Mánudagur 20. janúar 1997 Sýn kl. 21.00: Fjögurra stjörnu mynd með Kirk Douglas Kvikmynd kvöldsins á Sýn er sannkölluð stórmynd enda er hér fjögurra stjörnu mynd á ferðinni sem heitir Bréf til þriggja kvenna, eða A Letter to Three Wives.

Mánudagur 20. janúar 1997 Sýn kl. 21.00: Fjögurra stjörnu mynd með Kirk Douglas Kvikmynd kvöldsins á Sýn er sannkölluð stórmynd enda er hér fjögurra stjörnu mynd á ferðinni sem heitir Bréf til þriggja kvenna, eða A Letter to Three Wives. Leikstjóri er Joseph L. Mankiewicz sem jafnframt skrifaði handritið og fékk Óskarsverðlaunin fyrir hvort tveggja. Í myndinni segir frá þremur eiginkonum sem hefur borist sameigninlegt bréf frá skvísunni Addie Ross en hún er gömul kærasta allra eiginmannanna. Í bréfinu segist Addie vera flutt úr bænum og að með henni hafi farið eiginmaður einnar þeirra en skvísan lætur ósagt hver þeirra það sé. Eiginkonunum er að vonum brugðið og upphefjast nú miklar vangaveltur. Aðalhlutverk leika Kirk Douglas, Jeanne Crain, Linda Darnell og Ann Southern. Myndin er frá árinu 1949. Vinsamlegast birtið mynd af Kirk Douglas! Þriðjudagur 21. janúar 1997 Sýn kl. 17.30: Snarruglaðir Beavis og Butthead Fígúrurnar Beavis og Butthead eru nú aftur mættir til leiks á Sýn og ætla að skemmta sjónvarpsáhorfendum alla þriðjudaga næstu vikurnar. Óhætt er að segja að ,strákarnir" hafi aldrei verið sprækari og í þessum þáttum leika þeir á alls oddi. Sem fyrr halda þeir sig að mestu í ónefndu úthverfi og furðuleg uppátæki þeirra eru á sínum stað. Tónlistin á enn þá hug þeirra allan en Beavis og Butthead gera kröfur í þeim efnum og eru ekkert að fela það ef þeim mislíkar tiltekin hljómsveit eða söngvari. Stelpur eru líka ofarlega á vinsældarlistanum hjá þeim félögum en seint verður sagt að framkoma þeirra við hitt kynið sé til fyrirmyndar. Miðvikudagur 22. janúar 1997 Sýn kl. 21.15: Gamanmyndin Á gelgjuskeiði Gamanmyndin Á gelgjuskeiði, eða Mischief, er á dagskrá Sýnar í kvöld. Umfjöllunarefnið er ungt fólk og áhugamál þess sem oftar en ekki snýst um hitt kynið. Sagan gerist í ónefndum smábæ þar sem unglingspilturinn Jonathan Bellah er búsettur. Hann er ekki ólíkur öðrum jafnöldrum sínum en mætti þó hafa sig meira í frammi. Dag einn fellur Jonathan kylliflatur fyrir fegurðardísinni Marylin McCaluey en hún lætur sér fátt um finnast og veit vart af tilvist hans. Þá kemur vinurinn Gene til skjalanna og segir Jonathan að með hans hjálp geti hann sængað hjá fegurðardísinni á innan við mánuði. Í helstu hlutverkum eru Doug McKeon, Kelly Preston og Chris Nash en leikstjóri er Mel Damski. Myndin, sem er frá 1985, er bönnuð börnum. Laugardagur 25. janúar 1997 Sýn kl. 21.00: Enn fleiri strákapör Fyrri laugardagsmynd Sýnar heitir Strákapör 2, eða Porky's Revenge, en í henni koma við sögu ýmsar kunnuglegar persónur sem voru á dagskrá ekki alls fyrir löngu. Glensið og grínið er enn til staðar og þrátt fyrir ýmsar lexíur frá fyrri ævintýrum eru krakkarnir úr Angel Beach skólanum í Flórída enn við sama heygarðshornið og láta sér ekki segjast. Porky er aftur kominn á stjá og farinn að reka klúbbinn sinn en þegar hann hótar körfuboltaþjálfara krakkanna líkamsmeiðingum verður fjandinn laus. Eins og áður snýst lífið hjá krökkunum að stórum hluta um að skemmta sér en hér sannast líka að allt er best í hófi. Leikstjóri er James Komack. Myndin er frá árinu 1985. Laugardagur 25. janúar 1997 Sýn kl. 22.35: Boxkvöld á Sýn Áhugamenn um hnefaleika fá að sjá marga af fremstu boxurum heims í léttari þyngdarflokkum á Sýn í kvöld. Sýndir verða nokkrir bardagar frá Las Vegas í Bandaríkjunum en á meðal þeirra sem þar stíga í hringinn er Oscar De La Hoya. Hann keppir í léttvigt (Super Lightweight) en andstæðingur hans að þessu sinni er Miguel Angel Gonzalez frá Mexíkó. Í húfi er heimsmeistaratitill WBC-sambandsins í áðurnefndum þyngdarflokki og má búast við spennandi keppni. De La Hoya hefur aldrei beðið lægri hlut í hringnum og sömu sögu má reyndar segja um Gonzalez. Ýmsar aðrir forvitnilegir bardagar eru líka á dagskrá og sem fyrr mun Bubbi Morthens skýra frá því sem fyrir augu ber.