Mánudagurinn 20. janúar 1997 Stöð 2 kl. 21.15: Gamanmynd með Woody Allen Woody Allen kemur töluvert mikið við sögu í dagskrá Stöðvar 2 þessa dagana en hann er einmitt í aðalhlutverki í kvikmyndinni Leppurinn, eða The Front.

Mánudagurinn 20. janúar 1997 Stöð 2 kl. 21.15: Gamanmynd með Woody Allen Woody Allen kemur töluvert mikið við sögu í dagskrá Stöðvar 2 þessa dagana en hann er einmitt í aðalhlutverki í kvikmyndinni Leppurinn, eða The Front. Þetta er hreint frábær gamanmynd enda fær hún fullt hús hjá Maltin, eða fjórar stjörnur. Þótt fyndin sé er umfjöllunarefni myndarinnar heldur nöturlegt. Woody Allen leikur náunga sem lifir á því að lána útskúfuðum rithöfundum nafn sitt á sjötta áratugnum þegar pólitískar ofsóknir voru daglegt brauð í Bandaríkjunum. Höfundar á svarta listanum settu nöfn annarra á verk sín svo gefa mætti þau út. Myndin var gerð 1976 en í helstu hlutverkum auk Allens eru Zero Mostel, Herschel Bernardi og Michael Murphy. Leikstjóri er Martin Ritt. Þriðjudagurinn 21. janúar 1997 Stöð 2 kl. 20.20: Fluguhnýtingar í Fjörefninu Nú hækkar sól á himni eftir dimman vetur og þá byrjar útivistarfólkið að hugsa sér til hreyfings. Í Fjörefninu á Stöð 2 verður fluguveiðifélagið Ármenn heimsótt en þar á bæ dunda menn sér við það á löngum vetrarkvöldum að hnýta flugurnar sem fiskurinn tekur næsta sumar. Einnig hittum við fyrir fjallgöngugarpa sem fara í álagspróf á Reykjalundi en þeir hafa sett stefnuna á Mount Everest næsta sumar. Þar að auki kynnumst við bardagaíþróttinni akido. Umsjón með þættinum hefur Snorri Sturluson en um dagskrárgerð sér Kolbrún Jarlsdóttir. Miðvikudagurinn 22. janúar 1997 Stöð 2 kl. 21.15: Ellen og móðurhlutverkið Það eru örugglega fáir eins góðhjartaðir og hún Ellen vinkona okkar sem er á dagskrá Stöðvar 2 öll miðvikudagskvöld. Þrátt fyrir að á ýmsu gangi í lífi hennar og vinirnir í kringum hana séu stundum tillitslausir heldur Ellen sínu striki og lætur á engu bera. Hún er oftast í góðu skapi og trúlega er það ein af ástæðunum fyrir því að fólk laðast að henni. Í þætti kvöldsins hefur Ellen að vanda í nógu að snúast og nú er það barnapössun sem er í fyrirrúmi. Dóttir kærasta vinukonu hennar þarf barnapíu og Ellen tekur að sér hlutverkið. Svo vel líkar Ellen þetta nýja hlutverk að hún fer sjálf að íhuga barneignir en lærir jafnframt að það hefur ýmis vandkvæði í för með sér. Fimmtudagurinn 23. janúar 1997 Stöð 2 kl. 21.25: Skuggi dauðans Bíómyndin Skuggi dauðans, eða Tall, Dark and Deadly, er á dagskrá Stöðvar 2. Í þessari spennumynd segir frá ungri konu sem er enn að jafna sig eftir að samband hennar og kærastans fór út um þúfur. Brátt verður annar myndarlegur maður á vegi hennar og áður en varir er konan búin að stofna til ástarsambands sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Nýi ástmaðurinn er nefnilega ekki heill á geðsmunum og setur ekki fyrir sig að svipta fólk lífi ef honum mislíkar eitthvað í fari þess. Þegar morð er framið fellur grunurinn á konuna sem nú á úr vöndu að ráða. Leikstjóri er Kenneth Fink en aðalhlutverk leika Jack Scalia, Kom Delaney og Todd Allen. Myndin, sem er frá 1995, er stranglega bönnuð börnum. Föstudagurinn 24. janúar 1997 Stöð 2 kl. 22.35: Reyfari Tarantinos Síðari frumsýningarmynd föstudagskvöldsins á Stöð 2 heitir Reyfari, eða Pulp Fiction, og skartar John Travolta, Samuel L. Jackson, Umu Thurman og Harvey Keitel í aðalhlutverkum. Þetta er víðfræg bíómynd eftir Quintin Tarantino um lífið á bak við draumakennt yfirborð Hollywood-borgar. Við kynnumst tveimur þverhausum sem vinna fyrir sér með því að stúta óvinum mafíósans á staðnum. Þeir kalla ekki allt ömmu sína en þrátt fyrir alla gallana er þeim efst í huga að verja vafasaman heiður sinn. Myndin var gerð árið 1994 en fyrir hana fær Tarantino þrjár og hálfa stjörnu hjá Maltin. Reyfari er stranglega bönnuð börnum. Laugardagurinn 25. janúar 1997 Stöð 2 kl. 21.10: Ekkjuhæð á Stöð 2 Kvikmyndin Ekkjuhæð, eða Widows Peak, er á dagskrá Stöðvar 2. Sögusviðið er Írland á fyrri hluta aldarinnar en hér segir frá nokkrum ekkjum sem búa í þorpinu Kilshannon undir Ekkjuhæð. Þær hafa fátt annað við tímann að gera en tala um náungann og eru ósparar á slúðrið svo ekki sé nú meira sagt. Tvær kvennanna elda auk þess grátt silfur saman og lýsa yfir stríði hvor gegn annarri. Fáránleg átök þeirra leiða af sér skammarlega hegðun, fjárkúgun og kannski morð. Myndin, sem var gerð árið 1994, er öll á gamansömum nótum en henni leikstýrir John Irving og í helstu hlutverkum eru Mia Farrow, Joan Plowright og Natasha Richardson. Sunnudagurinn 26. janúar 1997 Stöð 2 kl. 22.50: Úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum Stöð 2 sýnir beint frá úrslitaleiknum í ameríska fótboltanum (NFL - Super Bowl), rétt eins og í fyrra. Þá fagnaði lið Dallas Cowboys sigri en í ár eru meistararnir fjarri góðu gamni. Þegar þessar línur eru ritaðar liggur ekki ljóst fyrir hvaða tvö lið mætast í úrslitaleiknum sem fram fer í Super Dome höllinni í New Orleans enda úrslit úr undanúrslitunum ekki ljós. Þar mætast annars vegar New England Patriots og Jacksonville Jaguars og hins vegar Carolina Panthers og Green Bay Packers. Til gamans má geta að Panthers lagði meistara Dallas að velli í 8-liða úrslitunum og Jaguars vann deildarmeistarana Denver Broncos.